Gáfu fjöldamorðingja hamborgara

Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu í Shelby.
Hér má sjá Dylann Roof í haldi lögreglu í Shelby. AFP

Að minnsta kosti fimm lögreglumenn í Shelby í Norður Karólínu umkringdu svarta Huyndai bifreið Dylann Roof áður en hann var handtekinn á fimmtudaginn, um sextán klukkustundum eftir að hann hóf skotárás í kirkju í Charleston í Suður Karólínu.

Á Roof að hafa opnaði glugga bifreiðarinnar rólega, rétt lögreglumann ökuskírteinið sitt og sagt „Ég er Dylann Roof“.

Nú hefur lögreglumaður sem tók þátt í því að handtaka hinn 21 árs gamla Roof sagt frá því hvernig handtakan fór fram og hvað gerðist í kjölfarið.

Í samtali við The Charlotte Observer lýsti lögreglumaðurinn Jeff Ledford því hvernig maðurinn hagaði sér eftir handtökuna. Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, sá um fyrstu yfirheyrsluna á Roof en fyrsta samtal hans við lögreglu snerist um mat. Að sögn Ledford var Roof mjög svangur þegar hann var handtekinn. Hafði hann sagt lögreglumönnum að hann hafi fyrr um daginn keypt sér vatnsflösku og kartöfluflögur á bensínstöð en væri nú svangur. Lögreglumenn brugðust við með því að kaupa handa honum máltíð á Burger King stað í nágrenninu.

„Hann var mjög þögull, mjög rólegur. Hann sagði ekki neitt,“ lýsti Ledford. „Hann settist niður mjög rólega. Hann olli engum vandræðum.“

Þegar Roof var í haldi lögreglunnar í Shelby sagði hann lögreglumönnum að hann hafi skipulagt árásina lengi og gert þessa ákveðnu kirkju að skotmarki sínu vegna sögu hennar. Að sögn Ledford var Roof á leið til Nashville í Tennessee eftir morðin vegna þess að „hann hafi aldrei komið þangað áður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert