Dómari við alríkisdómstól í Bandaríkjunum mun í dag formlega dæma Dzhokhar Tsarnaev, sem ásamt bróður sínum Tamerlan stóð að sprengjuárásinni á Boston-maraþonið 2013, til dauða. Hinn 21 árs gamli Tsarnaev fær ennfremur af því tilefni að tjá sig um málið.
Fram kemur í frétt AFP að Tsarnaev hafi til þessa ekki tjáð sig við réttarhöldin yfir honum en kviðdómur dæmdi hann einróma til dauða 15. maí. Gert er ráð fyrir að fórnarlömb árásarinnar og ættingjar þeirra tjái sig einnig við formlega uppkvaðningu dómsins í dag.
Tsarnaev hefur ekki sýnt neina opinbera iðrun vegna árásanna sem kostuðu þrjá lífið og særðu 264 aðra. Kaþólsk nunna sem ræddi við hann fullyrðir þó að hann hafi sagt við hana að enginn ætti skilið að deyja með þeim hætti sem raunin varð.