Brjálaðir bílstjórar brenndu bíla

Ævareiðir leigubílstjórar í Frakklandi kveiktu í bílum og hindruðu för fólks til og frá flugvöllum og lestarstöðvum í dag til að mótmæla þjónustu Uber. Í gegnum app er hægt að panta far með Uber-bílunum og hefur það dregið verulega úr eftirspurn eftir hefðbundnum leigubílum í Frakklandi, að sögn leigubílstjóranna.

Um 2.800 leigubílstjórar tóku þátt í mótmælunum. Þeir settu upp þrjátíu vegatálma vítt og breitt um landið og hindruðu m.a. för fólks til og frá Charles De Gaulle flugvelli í París.

Leigubílstjórar í Frakklandi eru öskureiðir yfir þjónustu Uber sem heitir UberPOP. Með henni geta viðskiptavinir komist í beint samband við bílstjóra og greiða lægra gjald en með hefðbundnum leigubíl.

Leigubílstjórar, sem þurfa sérstakt leyfi til aksturs, segja að þetta stofni viðskiptum þeirra í hættu. Þeir segja að hafsjór bíla á markaðnum verði til þess að tekjurnar minnka verulega.

Þjónustan UberPOP hefur verið bönnuð í Frakklandi frá því í janúar. Það hefur hins vegar reynst erfitt að framfylgja lögunum og því halda viðskiptin áfram.

Í dag urðu mótmælin mjög harkaleg og var t.d. einn bílstjóri, sem sakaður er um að taka við viðskiptum í gegnum app Uber, dreginn út úr bíl sínum af æstum leigubílstjórum. Þeir skáru á dekk bíls hans og brutu rúðurnar. Síðan  kveiktu þeir í bílnum.

Lögreglan þurfti að nota táragas til að brjóta mótmælin á bak aftur. Þá þurfti að hreinsa til brunnin dekk og annað rusl af hraðbrautum við flugvelli og lestarstöðvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert