Fjórir létu lífið í sjálfsmorðsárás

Að minnsta kosti fjórir létu lífið í sjálfsmorðsárás á mosku sjíta múslíma í höfuðborg Kúveit í dag. Fjölmargir særðust í árásinni og er talið líklegt að fjöldi látinna muni hækka.

Árásin var gerð þegar að föstudagsbænahald stóð yfir í Iman Sadiq moskunni í hverfinu al-Sawaber í austur hluta borgarinnar.

Hryðjuverkasamtök sem tengjast Ríki íslams hafa sagst bera ábyrgð á árásinni. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á samskonar árásum í bæði Sádi Arabíu og Jemen.

Samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum létust fjórir í árásinni en samkvæmt frétt AFP hafa að minnsta kosti þrettán látið lífið.

Kúveiskur þingmaður, sem sá árásina, sagði í samtali við fjölmiðla að um tvöþúsund manns hafi verið í moskunni þegar árásin var framin. Á myndskeiðum sem hafa borist frá árásarstaðnum má sjá karlmenn, suma blóðuga, ganga um herbergi fullt af reyk.

Liðsmenn Ríkis íslams telja sjíta múslíma vera trúleysingja en sjíta múslímar eru í minnihluta í Kúveit.

Frétt BBC um málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert