Forseti Frakklands, Francois Hollande, fordæmdi í morgun ofbeldisfull mótmæli leigubílstjóra gegn leigubílaþjónustunni Uber. Hann tók hins vegar undir það að koma ætti í veg fyrir þjónustuna. Sagði forsetinn að mótmælin væru óásættanleg í lýðræðisríki eins og Frakklandi.
Fram kemur í frétt AFP að um þrjú þúsund leigubílstjóra hafi tekið þátt í mótmælunum. Þeir hafi hindrað aðgang að alþjóðaflugvöllunum Charles de Gaulle og Orly í París, höfuðborg Frakklands, kveikt í bifreiðum og komið í veg fyrir að bifreiðar kæmust á lestarstöðvar.
Tíu manns hafa verið handteknir vegna mótmælanna, sjö lögreglumenn hafa slasast og um 70 farartæki skemmd í átökum á milli hefðbundinna leigubílstjóra og Uber-leigubílstjóra. Uber hefur verið ólöglegt síðan í janúar en illa hefur gengið að framfylgja banninu á þjónustunni.