Öryggisgæsla hert vegna árásar

AFP

Forsætisráðherra Frakklands hefur fyrirskipað herta öryggisgæslu við mikilvæg svæði í nágrenni frönsku borgarinnar Lyon, en karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa afhöfðað mann og sært nokkra aðra. Talið er að maðurinn sé íslamisti.

Árásin átti sér stað við gasverksmiðju sem er skammt frá frönsku borginni Lyon, n.t.t. í  Saint-Quentin-Fallavier. Þar heyrðust einnig nokkrar sprengingar. Talið er líklegt að þarna hafi verið um gashylki að ræða.

Talið er að tveir árásarmenn hafi ekið að verksmiðjunni en aðeins einn maður hefur verið handtekinn. Þeir eru sagðir hafa veifað fána með arabískum texta, en fáninn fannst skammt frá. Þá hefur verið greint frá því að höfuð hafi fundist fest ofan á aðalhlið verksmiðjunnar. Frönsk yfirvöld telja að mennirnir hafi mætt á svæðið með höfuðið meðferðis.

Franska lögreglan rannsakar árásina sem hryðjuverk.

Lögreglan hefur girt svæðið af.
Lögreglan hefur girt svæðið af. AFP

Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, er sagður á leiðinni á vettvang. Þá mun Francois Hollande Frakklandsforseti snúa aftur heim en hann hefur verið staddur í Brussel á ESB-ráðstefnu.

Árásin átti sér stað um klukkan 10 að staðartíma, eða um kl. 8 að íslenskum tíma. 

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, segir að öryggi verði hert í og við borgina. 

Í janúar sl. féllu 17 í árás íslamskra öfgamanna í og við París.

Maðurinn hálshöggvinn í Frakklandi

Lögregla og sjúkralið á vettvangi í dag.
Lögregla og sjúkralið á vettvangi í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert