Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, sagðist í kvöld ætla að mynda minnihlutastjórn í Danmörku, skipaða eingöngu ráðherrum úr röðum Venstre. Hann sagðist ekki hafa náð samkomulagi við Danska þjóðarflokkinn, sigurvegara kosninganna, um myndun meirihlutastjórnar. Stjórnarmyndunarviðræðurnar hefðu farið út um þúfur.
„Tilfinningin mín eftir viðræðurnar í kvöld er sú að það væri hægt að mynda ríkisstjórn Venstre undir minni stjórn, sem mun njóta stuðnings þingsins,“ sagði hann við danska fjölmiðla í kvöld.
Rasmussen er verðandi forsætisráðherra Danmerkur þrátt fyrir að flokkur hans hafi beðið afhroð í þingkosningunum 18. júní síðastliðinn. Flokkurinn var sá þriðji stærsti og hlaut 19,5% atkvæða. Danski þjóðarflokkurinn er sigurvegari kosninganna og bætti miklu fylgi við sig - fór það úr 12,3% í 21,1%. Flokkurinn hefur hins vegar lagt áherslu á að hann fari ekki í stjórn nema hann fái mikil áhrif innan hennar.
Danski þjóðarflokkurinn vill einnig auka ríkisútgjöld um 0,8% á meðan Venstre vill halda þeim óbreyttum.
Ljóst er að staða ríkisstjórnar Venstre yrði veik á danska þinginu, þar sem flokkurinn hefur aðeins 24 þingmenn af 179.
Rasmussen sagðist ætla að ganga á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar á sunnudaginn og kynna fyrir hana áformin. Drottningin hafði áður beðið Rasmussen um að kanna möguleikann á að mynda meirihlutastjórn.
Hann gafst hins vegar upp á því eftir að hafa rætt við formenn allra borgaralegu flokkanna sem saman mynda bláu blokkina. Þetta eru flokkarnir Venstre, Danski þjóðarflokkurinn, Samtök frjálslyndra og Íhaldsflokkurinn.