Gengur á fund Danadrottningar

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre.
Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre. AFP

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre-flokksins í Danmörku, mun ganga á fund Margrétar Þórhildar Danadrottningar klukkan tíu í fyrramálið og mynda nýja ríkisstjórn í landinu.

Ætlar hann að mynda minnihlutastjórn skipaða eingöngu ráðherrum úr sínum eigin flokki.

Rasmussen tilkynnti fljótlega eftir að hann fékk stjórnarmyndunarumboðið að ómögulegt væri fyrir flokkinn að mynda meirihlutastjórn með hinum hægri flokkunum, þar á meðal Danska þjóðarflokknum, sigurvegara dönsku þingkosninganna.

Danskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að ein af meginástæðum þess að viðræðurnar fóru út um þúfur hefði verið ólíkar hugmyndir flokkanna í skattamálum. Þannig vildi Rasmussen lækka tekjuskatt á hátekjufólk úr 15% í 10%.

Danski þjóðarflokkurinn gat ekki sætt sig ekki við það, en í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á að auka ríkisútgjöld til lífeyris- og heilbrigðismála.

Haft er eftir Sören Espersen, varaformanni flokksins, í Politiken í dag að flokkurinn hafi ekki áhuga á því að lækka skatta á þá tekjuhæstu. „Við höfum ekkert með það að gera,“ sagði hann.

Flokkurinn væri ekki ánægður með það sem fram kæmi í stefnuyfirlýsingu minnihlutastjórnarinnar.

Ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt féll í kosningunum 18. júní síðastliðinn. Fékk Rasmussen stjórnarmyndarumboðið, þrátt fyrir að flokkur hans hefði beðið afhroð og tapað miklu fylgi.

Staða minnihlutastjórnar Venstre verður ansi veik á danska þinginu, en flokkurinn hefur aðeins 34 þingsæti af 179.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert