Anthimos Thomopoulos, bankastjóri Piraeus-bankans í Grikklandi, segir við Reuters í dag að bankar í landinu verði ekki opnaðir á morgun. Er það liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyrir endanlegt hrun í gríska efnahagskerfinu.
Ummæli Thomopoulos féllu eftir neyðarfund í fjármálastöðugleikanefnd nú í kvöld. Í nefndinni sitja meðal annars fjármálaráðherra landsins, Yanis Varoufakis, aðstoðarfjármálaráðherrann Dimitris Mardas og seðlabankastjórinn Yannis Stournaras.
Búist er við yfirlýsingu frá nefndinni síðar í kvöld. Þegar Varoufakis yfirgaf fundinn sagði hann við blaðamenn að ríkisstjórnin ætlaði að funda síðar í kvöld til þess að taka ákvörðun um framhaldið.
Að sögn Bloomberg-fréttastofunnar ætla grískir bankar ekki að opna aftur fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem halda á þann 5. júlí.
Seðlabanki Evrópu ákvað í gær að viðhalda neyðaraðstoð sinni til grísku bankanna upp að sama marki og áður. Grikkir eru hins vegar margir hverjir hræddir um sparifé sitt og margir milljarðar evra hafa verið teknir út úr hraðbönkum og bönkum í landinu á undanförnum vikum. Heimildarmaður AFP í gríska bankageiranum segir að 60% af hraðbönkum í landinu hafi tæmst í dag og búðarhillur í landinu verða tómlegri með hverjum deginum.