Ríkisstjórn með 34 þingmönnum

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre.
Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre. AFP

Ný ríkisstjórn tók við í Danmörku í dag. Er um að ræða minnihlutastjórn Venstre undir forystu Lars Løkke Rasmussen en það vekur athygli að ríkisstjórnarflokkurinn er aðeins með 34 þingmenn af alls 179.

Aðeins einu sinni  í sögunni hefur ríkisstjórnarflokkur/flokkar haft færri þingsæti. Það gerðist árið 1973 þegar Venstre myndaði minnihlutastjórn með aðeins 22 þingmenn af 179. Sú ríkisstjórn féll eftir aðeins 14 mánuði. 

Í ríkisstjórninni eru 17 ráðherrar og þar af fimm konur. Rasmussen hefur lagt fram 36 blaðsíðna ríkisstjórnarsáttmála þar sem fram koma ýmis stefnumál og markmið sem ríkisstjórnin ætlar sér að framkvæma. Anette Borchhorst, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Álaborg segir þetta til marks um að ríkisstjórnin geri jafnréttismálum ekki hátt undir höfði. 

„Þetta bendir til þess að Rasmussen leggi ekki áherslu á jafnréttismál, sérstaklega þegar litið er til þess að í síðustu ríkisstjórn hans var hæsta hlutfall kvenráðherra í sögunni, 48%,“ segir Borchorst en hlutfallið í nýju ríkisstjórninni er 29%.

Skattar verða ekki hækkaðir

Meðal þess sem ríkisstjórnin ætlar sér, er að hækka eftirlaunaaldurinn, engar skattahækkanir verða á kjörtímabilinu, fleiri verkefni ríkis og sveitarfélaga verða boðin út, fjárframlög til móttöku á flóttamönnum verða lækkuð, skattar verða lækkaðir á þá tekjulægstu, hátekjuskattur verður afnuminn. Sett verður regla um að fólk eigi rétt á læknisaðstoð innan 30 daga frá því að óskað er eftir því. Ef opinber sjúkrahús geta ekki staðið við það markmið, þá munu einkasjúkrahús sjá um meðferðina.

Breytinga er að vænta í skólakerfinu en ekki er gert ráð fyrir auknum fjárframlögum.

Ríkisstjórnin mun setja á laggirnar nefnd sem á að móta stefnu í umhverfismálum fyrir tímabilið 2020-2030 og sjá til þess að Danmörk standi við alþjóðlegar skuldbindingar. 

Þá mun ríkisstjórnin í menningarmálum leggja áherslu á gæði og leitast við að styrkja innlenda framleiðslu, sérstaklega þá menningu sem inniheldur danska tungu.

Fullmótuð utanríkisstefna liggur ekki fyrir en ríkisstjórnin hefur boðað að hún muni fá sérfræðing í alþjóðamálum til að leiða stefnumótunarvinnu til framtíðar í þeim málaflokki. Fjárframlög til þróunaraðstoðar verða lækkuð í 0,7% af landsframleiðslu.

Nýju ráðherrar Danmerkur eru: Karsten Lauritzen, ráðherra skattamála, Karen Ellemann félags- og innanríkisráðherra, Troels Lund Poulsen viðskiptaráðherra, Inger Støjberg innflytjenda- flóttamanna og húsnæðismálaráðherra, Jørn Neergaard Larsen atvinnumálaráðherra, Kristian Jensen utanríkisráðherra, Esben Lunde Larsen ráðherra mennta- og rannsókna, Carl Holst ráðherra um norræna samvinnu, Hans Christian Schmidt samgöngu og byggingamálaráðherra, Søren Pind dómsmálaráðherra, Ellen Trane Nörby barnaráðherra, Eva Kjer Hansen umhverfis- og matvælaráðherra, Bertel Haarder, menningar- og kirkjumálaráðherra og Claus Hjort Frederiksen fjármálaráðherra. 

Venstre situr nú í minnihlutastjórn með aðeins 34 þingmenn af …
Venstre situr nú í minnihlutastjórn með aðeins 34 þingmenn af 179.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert