Tveir yfirmenn Uber í Frakklandi, Thibaud Simphal og Pierre-Dimitri Gore Coty, voru hnepptir í varðhald í dag og verða yfirheyrðir í tengslum við rannsókn á fyrirtækinu, sem er þekktast fyrir smáforrit sem gerir farþegum kleift að komast í samband við ódýra „leigubílstjóra“.
Uber hefur mætt vaxandi gagnrýni víða um heim vegna starfsemi sinnar, en fyrirtækið hefur sætt fjölda ásakana sem margar byggja á því að ökumenn Uber þurfa ekki að mæta sömu kröfum og hefðbundnir leigubílstjórar.
Rannsóknin í Frakklandi, þar sem þjónustan hefur mætt einna mestri andspyrnu, beinist m.a. að því hvort fyrirtækið hafi varðveitt persónuleg gögn lengur en því er heimilt, en fyrirtækið hefur m.a. verið dregið fyrir dómstóla í Belgíu, Hollandi og Spáni.
Þá lýstu stjórnvöld í Ungverjalandi því yfir á föstudag að frá og með 2018 yrðu allir leigubílstjórar sem nýttu sér Uber í atvinnuskyni að hafa öll hefðbundin leyfi.
Uber starfar í yfir 50 löndum en samkvæmt fyrirtækinu telja notendur þess í Frakklandi 400.000. Höfuðstöðvar þess eru staðsettar í San Francisco, en það er metið á um 50 milljarða Bandaríkjadala.
Í síðustu viku efndu leigubílstjórar í Frakklandi til mótmæla vegna þjónustu Uber. Tíu voru handteknir og 70 bifreiðar skemmdust í átökum milli hinna „hefðbundnu“ leigubílstjóra og bílstjóra Uber.