Slökkt var á báðum hreyflum

Af 58 farþegum vélarinnar létust 43 þeirra.
Af 58 farþegum vélarinnar létust 43 þeirra. AFP

Flugstjóri flugvélar TransAsia, sem hrapaði í miðborg Taipei í Taívan í febrúar á þessu ári, slökkti á þeim hreyfli vélarinnar sem var í lagi skömmu áður en hún hrapaði. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar slyssins sem verður gerð opinber á morgun.

Heimildarmaður Reuters heldur þessu fram í samtali við fréttastofuna. Annar hreyfill vélarinnar varð alelda aðeins örfáum mínútum eftir að hún tók á loft í Taipei þann 4. febrúar á þessu ári. Alls létu 43 manns lífið af 58 farþegum. Flugvélin lenti fyrst á hraðbraut í borginni þar sem hún rakst á leigubifreið, áður en hún endaði í á sem rennur í gegnum borgina. Flestir hinna látnu sátu fremst í vélinni. 

Rétt áður en flugvélin hrapaði sendi flugstjórinn neyðarboð til flugturnsins. „Mayday, mayday. Annar hreyfillinn er alelda,“ voru síðustu skilaboðin sem vélin sendi frá sér. Grunur lék á um að flugstjórinn hafi óvart slökkt á vitlausum hreyfli og þannig hafi vélin verið algjörlega án afls. 

Aðrir halda því fram að flugstjórinn hafi séð í hvað stefndi og ákveðið að slökkva á hreyflinum viljandi og reynt neyðarlendingu á ánni. Þannig á hann að hafa reynt að takmarka hættuna sem stafaði af brotlendingunni. 

Strax 37 sekúndum eftir að vélin tók á loft á hún að hafa lent í vandræðum með hreyfilinn sem síðar varð alelda. Á þessum rúmu tveimur mínútum sem vélin var í loftinu reyndi flugmaðurinn ítrekað að kveikja á hreyflunum. Þá sendi hann flugturninum fimm sinnum skilaboð um að vélin, sem var aðeins eins árs gömul, væri að prjóna, þ.e. væri að missa hæð þar sem nefið á vélinni beindist upp í loft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert