Tvær skólastúlknanna giftar

Stúlkurnar þrjár með farangur sinn á Gatwick flugvelli.
Stúlkurnar þrjár með farangur sinn á Gatwick flugvelli. AFP

Tvær af bresku skólastúlkunum þrem sem gengu til liðs við Ríki íslams fyrr í ár hafa nú gifst meðlimum hryðjuverkasamtakanna að sögn lögmanns fjölskyldna þeirra.

Kadiza Sultana, sem er 16 ára, og hinar 15 ára gömlu Shamima Begum og Amira Abase yfirgáfu heimili sín í febrúar og flugu til Istanbúl þaðan sem þær ferðuðust til Sýrlands. Tvær stúlknanna hafa haft samband við fjölskyldur sínar til að láta vita af því að þær hafi gifst meðlimum Ríkis íslams í athöfnum sem samtökin samþykktu. Áður hefur verið greint frá því að stúlkurnar búi nú í og við borgina Raqqa og séu í þjálfun fyrir „sérstakt verkefni“.

Lögmaðurinn gaf ekki upp hverjar stúlknanna hefðu gifst að ósk fjölskyldnanna. Sagði hann fréttirnar hafa ollið þeim miklu uppnámi. „Það rótfestir líf þeirra í Sýrlandi í stað Bretlands. Það veðrar vonina um að þær snúi aftur með veigamiklum hætti.“

The Guardian, sem greindi fyrst frá málinu, segir stúlkurnar hafa fengið lista af mönnum til að velja úr og að eiginmenn þeirra séu á þrítugsaldri.

Allar stúlkurnar gengu í Bethnal Green skólann í austurhluta London. Talið er að þær hafi fylgt í fótspor bekkjarfélaga sem fór til Sýrlands nokkrum mánuðum fyrr. Fjórum öðrum stúlkum hefur verið meinað að yfirgefa landið af dómstólum vegna ótta við að þær muni fara til Sýrlands.

Foreldrar stúlknanna hafa sakað lögreglu um að bregðast við upplýsingagjöf sem hefði getað gert þeim viðvart um að hætta væri á því að stúlkurnar færu til Sýrlands. Scotland Yard telur að um 600 Bretar hafi ferðast til Sýrlands og Íraks frá því að átökin hófust en þó er talið að um helmingur hafi þegar snúið aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert