Karlotta prinsessa átti daginn, en innblásturinn var augljóslega Díana prinsessa heitin. Svona er skírnardegi litlu prinsessunnar lýst, en hún var skírð við fámenna athöfn í kirkju heilagrar Maríu Magdalenu í Sandringham í Norfolk í dag.
Allt frá vali guðforeldra prinsessunnar til tónlistarinnar í athöfninni var augljóst að Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja af Cambridge vildu heiðra minningu föðurömmu Karlottu.
Skírnin tengdist Díönu prinsessu á margvíslegan hátt, en auk tengingar guðforeldranna við hana var Díana sjálf skírð í sömu kirkju á sínum tíma. Þá ber Karlotta einnig millinafnið Díana. Ljósmyndarinn Mario Testino sá um að festa athöfnina á filmu, en hann var náinn Díönu og tók sumar þekktustu myndanna af henni aðeins fáeinum mánuðum fyrir dauða hennar. Testino tók einnig trúlofunarmyndir Vilhjálms og Katrínar.
Sjá einnig: Konungleg skírn í Bretlandi í dag
Um 3.500 manns komu saman fyrir utan kirkjuna til að fylgjast með konungsfjölskyldunni koma og fara, en þetta var annað tækifæri almennings til að berja kornabarnið konunglega augum. Athöfnin var lokuð almenningi en aðdáendur konungsfjölskyldunnar fengu stæði utan við kirkjuna og gátu barið hana augum á leið inn og út úr kirkjunni.
Prinsessan var skírð af erkibiskupnum af Kantaraborg, en eldri bróðir Karlottu, Georg prins, var einnig skírður af honum. Eftir athöfnina var skírninni svo fagnað með teboði á vegum drottningarinnar í Sandringham.