Katrín hertogaynja, Vilhjálmur Bretaprins, Georg prins og Karlotta prinsessa eru nú mætt í kirkju heilagrar Maríu Magdalenu í Sandringham í Norfolk þar sem skírn prinsessunnar fer fram á eftir.
Fjöldi fólks hefur safnast saman fyrir utan kirkjuna, en þetta er annað tækifæri almennings til að berja kornabarnið konunglega augum. Athöfnin verður lokuð almenningi en aðdáendur konungsfjölskyldunnar fá stæði utan við kirkjuna og geta barið hana augum á leið inn og út úr kirkjunni.
Fyrr í dag tilkynnti fjölskyldan hverjir guðforeldrar prinsessurnar yrðu, og hefur valið komið mörgum á óvart. Guðforeldrarnir eru fimm talsins ólíkt því þegar Georg prins sonur þeirra var skírður, en þá voru guðforeldrarnir sjö. Athygli vekur að enginn meðlimur konungsfjölskyldunnar er í hópnum.
Hópurinn samanstendur af vinum og gömlum skólafélögum hjónanna, auk þess sem tenging við Díönu prinsessu, móður Vilhjálms sem lést í bílslysi í París árið 1997, er áberandi. Í hópnum er Laura Fellowes, dóttir lafði Jane Fellowes, systur Díönu. Þau Vilhjálmur eru því systkinabörn.
Þá er Thomas van Straubenzee, einn elsti vinur Katrínar og góður vinur Harry prins, í hópnum. Díana prinsessa var einnig náin van Straubenzee-fjölskyldunni og var meðal annars barnfóstra frænda Thomasar áður en hún giftist Karli Bretaprins, föður Vilhjálms.
Auk þeirra er Adam Middleton, frændi Katrínar, í hópnum ásamt James Meade, vini og fyrrverandi skólafélaga Vilhjálms, og Sophie Carter, vinkonu Katrínar.
Skírnin tengist Díönu prinsessu á margvíslegan hátt, en auk tengingar guðforeldranna við hana var Díana sjálf skírð í sömu kirkju á sínum tíma. Þá ber Karlotta einnig millinafnið Díana. Ljósmyndarinn Mario Testino mun sjá um að festa athöfnina á filmu, en hann var náinn Díönu og tók sumar þekktustu myndanna af henni aðeins fáeinum mánuðum fyrir dauða hennar. Testino tók einnig trúlofunarmyndir Vilhjálms og Katrínar.
Crowds at the gates of #Sandringham waiting for the #royalchristening pic.twitter.com/pPnOXRg9iE
— Chris Jackson (@ChrisJack_Getty) July 5, 2015
Prinsessan verður skírð af erkibiskupnum af Kantaraborg í einkaathöfn. Kirkjan stendur á landareign langömmu prinsessunnar, Elísabetar Englandsdrottningar, í göngufæri frá Amner Hall, sveitasetri fjölskyldunnar þar sem Vilhjálmur og Katrín búa nú.
Meðal gesta við athöfnina verða hin 89 ára gamla drottning og eiginmaður hennar, Filippus prins, faðir Vilhjálms, Karl Bretaprins, og eiginkona hans Camilla auk foreldra Katrínar, Carole og Michael Middleton.
Fyrsta barn þeirra Katrínar og Vilhjálms, Georg prins, verður einnig viðstaddur, en hann fagnar tveggja ára afmæli sínu 22. júlí. Bróðir Vilhjálms, Harry, verður fjarverandi þar sem hann er á þriggja mánaða ferð um Afríku.
Karlotta verður skírð með vatni úr ánni Jórdan sem var sérstaklega sótt með flugi fyrir athöfnina. Eftir athöfnina er talið að skírninni verði fagnað með teboði á vegum drottningarinnar í Sandringham.
St Mary Magdalene Church #Sandringham is one of exceptional historic interest. Find out more http://t.co/1UEst4VWnN pic.twitter.com/hppI3NmnSg
— Kensington Palace (@KensingtonRoyal) July 5, 2015
Eldri bróðir Karlottu, Georg prins, var einnig skírður af erkibiskupnum af Kantaraborg en í St. James höll í október 2013. Aðeins um sextíu vinir og fjölskyldumeðlimir fjölskyldunnar voru viðstaddir. Georg klæddist skírnarkjól úr blúndum sem er eftirgerð af skírnarkjól sem rúmlega sextíu meðlimir konungsfjölskyldunnar hafa klæðst frá árinu 1841. Ekki liggur fyrir hvort Karlotta litla muni klæðast sama kjól við sína skírnarathöfn.
Kirkjan hefur töluverða þýðingu fyrir bresku konungsfjölskylduna, því að fjölskyldan kemur ævinlega saman í henni á jóladag, auk þess sem Díana heitin prinsessa var skírð þar.
Skírnarfonturinn sem notaður verður við athöfnina er mikill silfurgripur, sem er að jafnaði til sýnis ásamt öðrum krúnudjásnum í Lundúnaturni.