Fjölskylda Alice Gross, fjórtán ára stúlku sem hvarf í ágúst á síðasta ári og fannst látin mánuði síðar, vilja að rannsakað verði af hverju bresk yfirvöld virðast ekki hafa haft vitneskju um fortíð Arnis Zalkalns, mannsins sem talinn er hafa myrt hana.
Lík Gross fannst í Brent-ánni í Hanwell í Bretlandi en lík Zalkalns í skóglendi í almenningsgarði í vesturhluta Lundúna. Hann hafði hengt sig en líkið var svo illa farið að bera varð kennsl á það með því að styðjast við upplýsingar úr tannlæknaskýrslu.
Lögregla staðfesti í janúar á þessu ári að talið væri að hann bæri ábyrgð á dauða stúlkunnar. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa myrt eiginkonu sína í Lettlandi og sat um tíma í fangelsi áður en hann flutti til Bretlands árið 2007.
Ættingjar Gross vilja vita hvað bresk yfirvöld vissu um fortíð Zalkalns og hvað þau hefðu átt að hafa í huga í tengslum við dóma hans í Lettlandi. Lögmaður fjölskyldunnar segir að örlög Gross virðist að hluta til mega rekja til þess að yfirvöld vissu lítið um hann.