15.000 ferkílómetrar kórala gætu horfið

Kóralrif eru griðarstaðir fjölmargra dýrategunda og því hefur dauði þeirra …
Kóralrif eru griðarstaðir fjölmargra dýrategunda og því hefur dauði þeirra gríðarleg áhrif á lífríki jarðarinnar. AFP

Bandaríska haf- og loftslagsstofnunin NOAA spáir því að allt að 15.000 ferkílómetrar af kóröllum gætu glatast að eilífu á innan við tveimur árum vegna hlýnandi sjávar. Það myndi þýða að 6% af núverandi kóralrifum heimsins hverfi.

Kóralar þrífast aðeins við ákveðið hitastig. Hlýni sjórinn um aðeins eina gráðu og helst þannig í meira en viku er líklegt að þeir fölni. Sé hlýnunin hófleg geta kóralarnir náð sér aftur á strik á einhverjum áratugum en þegar hún er mikil visna þeir og deyja.

Rannsóknir NOAA benda til þess að 12% kóralrifa heimsins hafi orðið fyrir fölnun síðasta árið. Tæplega helmingur kóralanna, um 12.000 ferkílómetra, gætu glatast til frambúðar. Vísindamenn stofnunarinnar telja hins vegar að fölnunin haldi áfram inn í árið 2016 og muni þá hafa náð til kóralrifa á öllum hitabeltissvæðum jarðarinnar. Áður en yfir ljúki gætu allt að 15.000 ferkílómetrar hafa glatast að eilífu.

Fölnun kóralrifja á heimsvísu hefur aðeins átt sér stað tvisvar sinnum áður, árin 1998 og 2010. Árið 1998 gerðist það í kjölfar óvenju öflugs El niño-viðburðar. Þá drápust 16-19% af kóralrifjum jarðarinnar. Mark Eakin, yfirmaður kóralrifjaeftirlits NOAA, segir að El niño ársins í ár hafi eflaust sín áhrif á fölnunina nú en meginorsök hennar sé vafalaust hnattræn hlýnun.

Frétt The Guardian af fölnun kóralrifja jarðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert