Hafa brugðist sýrlenskum börnum

Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai er átján ára gömul í dag
Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai er átján ára gömul í dag AFP

Malala Yousafzai er átján ára gömul í dag. Yousafzai eyddi afmælisdeginum við landamæri Sýrlands þar sem hún sagði að leiðtogar heimsins væru að bregðast sýrlenskum börnum.

Yousafzai öðlaðist heimsfrægð þegar hún var skotinn af talibönum í Pakistan árið 2012. Hún var skotin eftir að hún barðist opinberlega fyrir réttindum stúlkna til þess að mennta sig en hún hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári.

Hún hefur nú opnað skóla fyrir rúmlega 200 sýrlenskar stúlkur sem búa í flóttamannabúðum í Bekaa-dal í Líbanon.

Skólinn heitir í höfuðið á Yousafzai og mun bjóða stúlkum á aldrinum 14 til 18 ára upp á menntun.

„Það er mér heiður að halda upp á átján ára afmælið mitt með hugrökkum stúlkum Sýrlands,“ sagði Yousafzai í yfirlýsingu. „Ég er hér fyrir hönd þeirra 28 milljóna barna sem komast ekki í skólann vegna vopnaðra átaka.“

„Hugrekki þeirra og áhugi á því að halda áfram í skóla í erfiðum aðstæðum er innblástur fólks um allan heim og það er okkar skylda að standa með þeim. Á þessum degi er ég með skilaboð til leiðtoga þessa lands, þessa svæðis og heimsins: þið eruð að bregðast fólkinu í Sýrlandi, sérstaklega börnum í Sýrlandi. Þetta er hræðilegur harmleikur.“

Næstum því 1,2 milljónir flóttamanna frá Sýrlandi halda nú til í flóttamannabúðum í Líbanon. Straumurinn hefur haft áhrif á landið en íbúar Líbanons eru aðeins fjórar milljónir talsins.

Eftir að talibanarnir reyndu að drepa hana í október 2012 var Yousafzai flutt til Bretlands. Nú býr hún þar með fjölskyldu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert