Fjöldamorðinginn ber ekki vitni

James Holmes
James Holmes AFP

Eftir ellefu vikur sér loks fyrir endann á réttarhöldunum yfir fjöldamorðingjanum James Holmes en hann er ákærður fyrir að hafa myrt tólf manns í kvikmyndahúsi í Colorado í Bandaríkjunum árið 2012.

Holmes sagði dómara á fimmtudaginn að hann myndi ekki bera vitni við réttarhöldin en málflutningi verjenda hans lauk á föstudaginn.

Dómari hafði sagt Holmes að ef hann myndi bera vitni yrði það gert í réttarsalnum og að kviðdómarar gætu spurt hann spurninga. Holmes tjáði dómaranum þá að hann myndi ekki bera vitni.

Holmes hefur lítið sem ekkert tjáð sig við réttarhöldin og varla sýnt viðbrögð þegar vitni lýstu óhugnaðinum sem átti sér stað í bíósalnum 20. júlí 2012. Kviðdómarar hafa hinsvegar fengið innsýn í hugarheim Holmes með upptökum á viðtölum sálfræðinga við Holmes en þær voru 22 klukkustunda langar.

Fyrri frétt mbl.is: „Þetta var eins og í hryllingsmynd“

Holmes er eins og fyrr segir ákærður fyrir morð á tólf manns og að hafa sært sjötíu aðra. Ákærurnar í málinu eru 165 talsins. Holmes segist saklaus sökum andlegra veikinda en saksóknarar sækjast eftir dauðarefsingu.

Holmes hefur alltaf viðurkennt að hafa framið árásina en segist hafa verið í geðrofi.

Seinni hluti aðalmeðferðar í málinu hefst á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert