Hiti í mótmælendum í Aþenu

Mótmæli á götum Aþenu.
Mótmæli á götum Aþenu. AFP

Í dag verða greidd atkvæði á gríska þinginu um samkomulag Grikklands við lánardrottna sína. Þúsundir mótmælenda eru nú fyrir utan þinghúsið og berast fregnir af því að bensínsprengjum hafi verið kastað í átt að húsinu.

Mótmælendur segja við fjölmiðla að þeir séu að mótmæla því sem þeir kalla ólýðræðislegu samkomulagi. Fjölmargir lögreglumenn eru við störf í miðborg Aþenu þar sem þinghúsið er staðsett og eru þeir undirbúnir með táragas ef þörf verður á en mótmælendurnir sjálfir hafa séð við þeim og mætt með gasgrímur. Fréttaritari Verdens gang í Aþenu segir marga afar reiða og öskra hátt á meðan aðrir virðast örvæntingafyllri.

Búist er við að atkvæðagreiðslan klárist um miðnætti að íslenskum tíma en fyrst tekur við umræða um samkomulagið. „Samkomulagið mun reynast okkur illa. Við viljum að þingið hafni því. Við fengum tækifæri til að segja okkar skoðun í þjóðaratkvæðagreiðslu og við sögðum nei. Okkur finnst því ríkisstjórnin vera að svíkja okkur,“ segir mótmælandinn Marios Antarsya í samtali við Verdens gang. Hann stendur ásamt félaga sínum Panagiotis Rossidis á Syntagma-torginu í Aþenu og öskrar hástöfum. 

„Eins og staðan er núna held ég að enginn vilji vera áfram hluti af evrusvæðinu. Á sama tíma og við vitum að það verður hræðilegt ef við myndum yfirgefa Evrópusambandið,“ segir Rossidis. Þeir segja Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands hafa svikið það tillit sem þjóðin sýndi Syriza þegar hann komst til valda.

Klofin þjóð og klofinn stjórnarflokkur

Samkomulagið sem kosið verður um í kvöld klýfur ekki aðeins þjóðina í tvær fylkingar heldur einnig ríkisstjórnarflokkinn Syriza. Örfáum klukkustundum áður en umræðurnar um samkomulagið áttu að hefjast sagði aðstoðarfjármálaráðherra landsins og Syriza-meðlimurinn Nadia Valavani af sér.

„Ég vil ekki greiða atkvæði með þessu samkomulagi og það þýðir að ég get ekki lengur verið hluti af þessari ríkisstjórn,“ sagði Valavani í samtali við AFP.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands í þingsalnum þar sem atkvæði verða …
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands í þingsalnum þar sem atkvæði verða greidd í kvöld. AFP
Nadia Valavani, aðstoðarfjármálaráðherra Grikklands sagði af sér í dag þar …
Nadia Valavani, aðstoðarfjármálaráðherra Grikklands sagði af sér í dag þar sem hún segist ekki lengur geta verið hluti af ríkisstjórninni vegna skoðunar hennar á samkomulaginu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert