Ung kona sem var á dögunum handtekin í Texas eftir að hún sparkaði í lögregluþjón sem hafði stöðvað hana fyrir að gefa ekki stefnuljós, fannst á mánudagsmorgun látin í fangaklefa sem hún var vistuð í.
Fjöldi spurninga hafa vaknað hjá aðstandendum konunnar og almenningi eftir að konan fannst hangandi í klefanum, en bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsakar nú málið.
Konan, Sandra Bland, var á föstudag stöðvuð af lögregluþjóni fyrir að gefa ekki stefnuljós þegar hún skipti á milli akreina. Hann ætlaði að sekta hana, en þá sparkaði hún í hann og var í kjölfarið handtekin.
Í myndskeiði sem annar vegfarandi tók af atvikinu sést lögregluþjónninn yfirbuga konuna. „Þú skelltir höfðinu á mér í jörðina, en þér er sama um það. Ég heyri ekki einu sinni,“ heyrist Bland segja í myndbandinu.
Yfirvöld segja allt benda til þess að dauði Bland hafi verið sjálfsvíg, en fjölskylda hennar er ekki á sama máli.
„Ef við fáum upplýsingar um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað munum við að sjálfsögðu komast til botns í því,“ sagði talsmaður lögreglunnar. „Ég veit að það er vantrú á því hjá vinum og fjölskyldu að hún myndi gera eitthvað þessu líkt og því er mjög mikilvægt að lögreglan fái að rannsaka málið til hlítar.“
Bland var nýlega komin til Texas frá Illinois til að hefja nýtt starf í sögulegum skóla þeldökkra.
„Allir sem þekktu Sandy Bland vissu að hana þyrsti í lífið. Hún var að skipuleggja framtíðina og kom hingað til að skapa framtíð, svo það að segja að hún hafi fyrirfarið sér er algjörlega fráleitt,“ sagði LaVaughn Mosley vinur hennar. Fleiri vinir hennar og fjölskyldumeðlimir hafa tekið undir í fjölmiðlum og segjast sannfærðir um að hún hafi ekki gert þetta sjálf.
Nú rannsakar lögregla málið. Þá hefur fjölskyldan ráðið lögfræðing til að rannsaka dauðann.