Dzhokhar Tsarnaev, sem ásamt bróður sínum Tamerlan stóð að sprengjuárásinni á Boston-maraþonið 2013, hefur nú verið færður í ADX öryggisfangelsið sem þykir það skelfilegasta í Bandaríkjunum.
Dómari við alríkisdómstól í Bandaríkjunum dæmdi hinn 21 árs gamla Tsarnaev til dauða í síðasta mánuði, en árásin kostaði þrjá lífið og særði 264 aðra.
Tsarnaev var í þessari viku færður í ADX fangelsið, sem er staðsett í Florence í Colorado, en það er einnig þekkt sem „Supermax,“ „Alcatraz of the Rockies“ og „American gulag“. Í fangelsinu sitja aðeins hættulegustu glæpamenn Bandaríkjanna, meðal annars Zacarias Moussaoui, einn þeirra sem skipulagði hryðjuverkin á Bandaríkin 11. september 2011, Terry Nichols, tilræðismaðurinn í Oklahomaborg og Joseph Swango - öðru nafni herra dauði (Dr Death) fjöldamorðingi sem eitraði fyrir sextíu sjúklingum sínum.
Alls hýsir fangelsið tæplega fimm hundruð fanga, en mannréttindasamtökin Amnesty International telja að starfsemi þessa illræmda fangelsis brjóti jafnvel gegn ákvæðum stjórnarskrár Bandaríkjanna þar sem refsingum sem beitt er innan þess eru á mörkum þess mannlega.
Fangarnir eru læstir inni klefum sínum sem eru litlu stærri en hefðbundið klósett að stærð. Pínulítið gat er á útvegg klefa þar sem þeir geta með naumindum séð út um. Þeir sjá ekki fjöllin heldur bara skýin og hluta af fangelsinu, ef þeir eru heppnir að sjá eitthvað út. Ólíkt öðrum fangelsum þá eru samskipti við annað fólk nánast útilokuð.
Tsarnaev mun sitja í fangelsinu þar til hann verður færður í fangelsi í Terre Haute í Indíana, þar sem hann verður tekinn af lífi. Við uppkvaðningu dómsins í síðasta mánuði bað Tsarnaev fórnarlömb sín þar afsökunar en það var í fyrsta skipti sem hann tjáði sig opinberlega um málið.
„Ég vil nú biðja fórnarlömbin og þá sem komust lífs af afsökunar,“ sagði hann. „Ég er sekur.“ Það væri enginn vafi á því.
Kviðdómur dæmdi hann einróma til dauða 15. maí síðastliðinn. Hann tjáði sig aldrei við réttarhöldin.