Fjölskyldur þeirra Þjóðverja sem létu lífið þegar farþegavél Germanwings var brotlent viljandi í frönsku Ölpunum í mars hafa hafnað tilboði flugfélagsins um skaðabætur og krefjast hærri bóta.
Lufthansa, móðurfélag Germanwings, tilkynnti 30. júní síðastliðinn að félagið myndi bjóða fjölskyldum fórnarlambanna 25 þúsund evrur, sem jafngildir um 3,6 milljónum íslenskra króna, í skaðabætur fyrir hvert fórnarlamb.
Jafnframt var hverjum nánum ættingja fórnarlambanna - þar á meðal foreldrum og börnum - boðið tíu þúsund evrur, um 1,48 milljón króna.
Það bættist við þær fimmtíu þúsund evrur á fórnarlamb sem Lufthansa greiddi fyrstu dagana eftir brotlendinguna.
„Þið verðið ekki hissa á því að skjólstæðingar mínir hafa sagt mér að hafna þessu óviðeigandi tilboði,“ skrifaði lögmaðurinn Elmar Giemulla, sem gætir hagsmuna ættingja þýsku fórnarlambanna, í brefi til lögmanns Germanwings.
Hann fór fram á að skaðabæturnar fyrir hverja og eina fjölskyldu yrðu í sex stafa tölu, að minnsta kosti 100 þúsund evrur.
„Gremja þeirra er mikil. Við erum að bíða eftir nýju tilboði frá Lufthansa,“ sagði Giemulla í samtali við AFP.
Allir um borð létu lífið þegar að farþegaþota Germanwings brotlenti 24. mars síðastliðinn. Talið er að aðstoðarflugstjóri flugvélarinnar, Andreas Lubtiz hafi viljandi brotlent vélinni.