Trump: McCain er ekki stríðshetja

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Don­ald Trump, for­setafram­bjóðand­inn skraut­legi, hef­ur enn á ný valdið upp­námi í Banda­ríkj­un­um, nú með því að gagn­rýna öld­ung­ar­deild­arþing­mann­inn og fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðand­ann John McCain á opn­um kosn­inga­fundi í Iowa í Banda­ríkj­un­um.

„Hann er ekki stríðshetja. Hann er aðeins tal­inn vera stríðshetja vegna þess að hann var tek­inn til fanga. Mér lík­ar bet­ur við þá sem voru ekki tekn­ir til fanga,“ sagði Trump, en áður hafði fund­ar­stjór­inn lýst McCain sem stríðshetju.

McCain þjónaði sem herflugmaður í Víet­nam­stríðinu en var hins veg­ar tek­inn til fanga eft­ir að flug­vél hans var skot­in niður. Hon­um var loks sleppt úr haldi fimm árum síðar.

Áhorf­end­ur voru greini­lega ekki ánægðir með um­mæli Trumps og bauluðu á hann.

Trump reyndi síðar að út­skýra orð sín bet­ur, en baðst þó ekki af­sök­un­ar.

Hann sæk­ist eft­ir því að verða for­setafram­bjóðanda Re­públi­kana­flokks­ins í for­seta­kosn­ing­un­um árið 2016. Sam­kvæmt ný­leg­um skoðana­könn­un­um mæl­ist hann með mest fylgi af þeim re­públi­k­un­um sem hyggj­ast berj­ast um sætið.

Áður hafði McCain gagn­rýnt harðlega um­mæli Trumps um að mexí­kósk­ir inn­flytj­end­ur væru all­ir sem einn glæpa­menn. Trump svaraði að bragði og sagði að McCain væri vit­leys­ing­ur sem hefði út­skrif­ast með lægstu ein­kunn úr her­skóla.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert