Nýjasta útspil Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Grikklandi hefur valdið uppnámi í Evrópu. Svört skýrsla sjóðsins um skuldastöðu gríska ríksins, sem kom út fyrr í vikunni, hefur dregið dilk á eftir sér og óttast margir að trúverðugleiki hans hafi beðið verulegan hnekki.
Athygli hefur vakið að skýrslunni, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að skuldabyrði gríska ríkisins sé orðin mun þyngri og óbærilegri en áður var talið og nauðsynlegt sé að evruríkin létti skuldabyrði landsins, var lekið í fjölmiðla aðeins klukkutímum áður en gríska og þýska þingið greiddu atkvæði um lánapakkann sem evruríkin hafa boðið Grikklandi.
Sjóðurinn hefur margoft fært rök fyrir því að lánardrottnar Grikklands verði að afskrifa hluta af níðþungum skuldum landsins. Hann hefur jafnframt slakað á skilyrðum sínum fyrir því að aðildarriki hans geti fengið lán úr sjóðnum og lagt þannig trúverðugleika sinn að veði. Reglurnar gera ráð fyrir að aðildarlönd sem glíma við ósjálfbærar skuldir geti ekki fengið lán. Horft var fram hjá þessum reglum þegar fyrstu tveir lánapakkarnir til handa Grikkjum voru samþykktir á sínum tíma.
Sjóðurinn samþykkti að leggja til 20.7 milljarða evra í fyrsta lánapakkanum til Grikklands árið 2010 og síðan 11,6 milljarða evra tveimur árum síðar.
Það sem kemur evrópskum embættismönnum helst í opna skjöldu er að sjóðurinn hafi ekki birt þessa mikilvægu skýrslu á meðan viðræður grískra stjórnvalda við lánardrottna sína um skilmála fyrir frekari lánveitingum stóðu yfir. Eins og kunnugt er náðist loks samkomulag seinasta mánudag eftir sautján klukkutíma fund. Stuttu síðar var skýrslan birt.
Skýrslan hefði getað breytt gangi viðræðnanna, að mati fréttaskýrenda, sérstaklega á þessum viðkvæma tímapunkti á meðan lokafundurinn stóð yfir.
AGS hefur þó staðhæft að mörgum hafi verið kunnugt um þetta nýja mat sjóðsins um skuldastöðu Grikklands, sem fjallað var um í skýrslunni. Það hafi margoft verið rætt áður en sjálf skýrslan kom út.
Í viðræðunum margumræddu var hart deilt um hvort sjóðurinn ætti áfram að skipta sér af skuldavanda Grikklands eftir að núverandi björgunaráætlun rennur út. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur gagnrýnt sjóðinn harðlega og sagt hann starfa glæpsamlega. Hann sé ábyrgur fyrir þeim efnahagsáföllum sem dunið hafa yfir landið. En embættismenn sem Financial Times ræddi við segja að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi krafist þess að sjóðurinn yrði með í næstu björgunaráætlun - þriðja lánapakkanum - og að lokum hafi Tsipras þurft að gefa eftir.
Á meðan deilurnar stóðu sem hæst á Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS, að hafa sagt skýrlega, samkvæmt tveimur embættismönnum sem sátu fundinn, að stjórn sjóðsins þyrfti að samþykkja allar beiðnir um nýjan lánapakka.
Embættismennirnir segja aftur á móti að Lagarde hafi ekki ljóstrað því upp á fundinum að starfsfólk sjóðsins hafi þegar verið búið að komast að endanlegri ákvörðun: Ef evruríkin væru ekki tilbúin til að samþykkja víðtækar afskriftir á skuldum Grikkja, sem þyrftu að vera mun meiri en áður hafi verið rætt um, þá myndi AGS ekki taka þátt í þriðju neyðarlánveitingunni. Í raun myndi sjóðurinn ekki einu sinni lána Grikkjum þá 16,4 milljarða evra sem eru afgangs í núverandi björgunarpakka.
Evrópskir embættismenn furða sig á því af hverju skýrslunni hafi verið lekið í valda fjölmiðla - til að mynda Financial Times - á þessum tímapunkti. Fréttaskýrendur segja að margir í Brussel klóri sér nú í höfðinu og velti fyrir sér hvað hafi vakið fyrir Lagarde. „Öll sagan um leyniskýrsluna er furðuleg,“ segir embættismaður við FT.
Það er ekkert leyndarmál að Lagarde og félagi hennar Poul Thomsen, sem hefur meðal annars stýrt sendinefnd AGS gagnvart Grikkjum, telja að gríska hagkerfið sé nánast í rústi og því þurfi að létta verulega skuldabyrði landsins, til þess að næsti lánapakki skili varanlegum árangri.
Það er einmitt afdráttarlaus niðurstaða skýrslunnar að Grikkir geti ekki að öllu óbreyttu staðið undir skuldum sínum næstu áratugina.
Þetta er í annað sinn á um tveimur vikum sem umtöluðum skýrslum sjóðsins er lekið í fjölmiðla. AGS birti fyrri skýrsluna, þar sem komist var að svipaðri niðurstöðu og í þeirri síðari, aðeins fáeinum dögum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Grikklandi 5. júlí, þar sem Grikkir höfnuðu skilmálum lánardrottnanna. Skýrslan olli miklu fjaðrafoki á evrusvæðinu, rétt eins og sú síðari, og var sú ákvörðun sjóðsins að birta hana rétt fyrir þjóðaratkvæðið harðlega gagnrýnd.
Lagarde tók til varnar og sagði að hluta af skýrslunni hefði þegar verið lekið á netið, nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna. Því hefði verið ákveðið að birta hana í heild sinni. Embættismenn innan AGS hafa staðhæft að skýrslurnar hafi ekki verið birtar til þess að hafa áhrif á stöðu mála í Grikklandi. Sjóðurinn sé ekki í neinni pólitík.
Fyrrum starfsmenn sjóðsins segja í samtali við FT að sjóðurinn hafi tekið nokkuð óvænt nýja og harðari afstöðu gagnvart öðrum lánardrottnum Grikklands, þá fyrst og fremst Þjóðverjum og Evrópska seðlabankanum. Hann vilji greinilega forðast það að glata enn meiri trúverðugleika.
„Það er verið að fá þá [sjóðinn] til að taka þátt í nýrri björgunaráætlun fyrir Grikkland sem þeir hafa ekki trú á,“ segir Robert Kahn, fyrrum embættismaður hjá AGS.
Þá vekur athygli að sömu ríkin og vilja að AGS taki þátt í þriðja lánapakkanum - en þar fara Þjóðverjar fremstir í flokki - eru þau sömu og leggjast hvað harðast gegn því að skuldir Grikkja verði afskrifaðar, sem er þvert á stefnu AGS.
Og það er vissulega Tsipras sjálfur, svarinn andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem neitaði í marga mánuði að skrifa undir lánapakka sem fæli ekki í sér skuldaafskriftir.
„Ég er enn forviða af hverju Grikkir taka ekki utan um AGS og faðma hann að sér eins fast og þeir geta,“ segir Douglas Rediker, fyrrum forstöðumaður hjá sjóðnum. AGS standi algjörlega á öndverðum meiði við Þjóðverja þegar komi að skuldaafskriftum. Þar sé sjóðurinn á bandi grískra stjórnvalda.
En þó svo að sjóðurinn hafi mætt ákveðinni andstöðu í Evrópu, þá eru Bandaríkin góður bandamaður. Stjórnvöld í Washington hafa á undanförnum vikum lagt mikla áherslu á að Grikkir þurfi á skuldaafskrift að halda og leikur jafnvel grunur um að stjórnvöld í Washington standi á bak við það að umræddri skýrslu AGS var fyrst lekið í fjölmiða.
Herma heimildir FT jafnframt að Jacob Lew, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafi sett mikinn þrýsting á starfsbróður sinn í Þýskalandi, þýska fjármálaráðherrann Wolfgang Schauble, um að Þjóðverjar samþykki að endurskipuleggja - með einum eða öðrum hætti - skuldir gríska ríkisins.
Á meðan leiðtogar evruríkjanna vilja að Grikkir byrji á að grípa til umbóta í ríkisfjármálum, þá hefur Bandaríkjastjórn lagt áherslu á að koma fyrst efnahag Grikklands á réttan kjöl. Í kjölfarið sé hægt að finna leiðir til að draga úr fjárlagahallanum.
Ólíklegt þykir hins vegar að Schauble, sem hefur tekið hvað harðasta afstöðu gegn Grikkjum, snúist hugur. Hann olli enn á ný ólgu í álfunni í vikunni með því að ljá máls á mögulegu brotthvarfi Grikkja úr evrópska myntbandalaginu.
Í umræðum á þýska þinginu á föstudaginn um hvort heimila eigi viðræður um frekari lánveitingar til handa Grikkjum sagði Schauble að brottför Grikklands frá evrusvæðinu „gæti kannski verið betri leið“ fyrir Grikki heldur en hinn 86 milljarða evra lánapakki sem þeim stendur nú til boða.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Schauble minnist á þennan möguleika og verður ekki það síðasta. Hann hefur hins vegar þurft að láta undan og beygja sig undir vilja Angelu Merkel - að minnsta kosti enn sem komið er.