Vefsíðan Ashley Madison, sem sérhæfir sig í að auðvelda notendum að stunda framhjáhald, segir í tilkynningu í dag að gögnum notenda síðunnar hafi verið stolið af tölvuþrjótum.
Tæknivefurinn Gizmodo fjallar um málið og segir þar að þrjótarnir, sem kalla sig „The Impact Team“, hafi birt viðkvæmar persónupplýsingar áður en vefsvæði þeirra var tekið niður. Fyrirtækið Avid Life Media, sem rekur Ashley Madison, staðfestir að persónulega auðkennandi upplýsingar hafi verið birtar af þrjótunum.
Rúmlega 37 milljón manns nota síðuna sem er til þess hönnuð að aðstoða fólk í samböndum við að halda framhjá mökum sínum. Segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að unnið sé með lögregluyfirvöldum að rannsókn innbrotsins í gagnagrunninn og að þeir sem eru ábyrgir muni fá að gjalda fyrir brot sín.
Slagorð vefsíðunnar er „Life is short. Have an affair.“ Gæti það útlagst á íslensku sem „Lífið er stutt. Haltu framhjá.“