Móðir brimbrettakappans Micks Fanning horfði með hryllingi á það í beinni útsendingu er hákarl réðst á hann á móti í Suður-Afríku í gær. Fanning, sem er 34 ára, var að keppa á stóru móti. Hann sá eitthvað í sjónum og fann það koma við sig en hristi það af sér. Svo kom í ljós að þetta var hákarl. Hann sparkaði og kýldi í dýrið og var svo fljótlega bjargað upp á sæþotu.
„Ég trúði ekki mínum eigin augum. Ég hélt að hann væri dáinn,“ segir móðir hans, Elizabeth Osborne, við ABC-fréttastofuna. „Ég var skelfingu lostin. Ég fór að sjónvarpinu, rétt eins og ég gæti togað hann til mín þaðan og bjargað honum.“
Osborne hefur þegar misst einn son sinn. Fyrir sautján árum lést sonur hennar í bílslysi. Minningar um slysið sóttu á hana er hún horfði á árásina á sunnudag.
„þegar Sean lést í bílslysi sá ég það ekki. En þetta var beint fyrir framan mig. Þetta var hryllingur.“
Fannig er þrefaldur heimsmeistari í grein sinni. Hann slapp án meiðsla.
„Ég bara sat þarna og svo fann ég að eitthvað kom við mig og ég sprakaði og reyndi að komast í burtu,“ segir Fanning. „Ég sá bara ugga. Ég beið eftir tönnunum.“ Hann segist hafa kýlt dýrið og við það hafi því brugðið.
Tveir hákarlar sáust í sjónum í námunda við Fanning. Tveir aðrir brimbrettakappar komu að til að hjálpa.