Stjórnendur framhjáhaldsþjónustunnar Ashley Madison hafa ítrekað afsökunarbeiðni sína til notenda síðunnar eftir að persónuupplýsingum milljóna notenda var stolið af tölvuþrjótum. Þeir hafa boðið notendum að eyða öllum upplýsingum um þá, þeim að kostnaðarlausu.
Undir venjulegum kringumstæðum innheimtir vefsíðan gjald fyrir að eyða notendaupplýsingum, 15 pund í Bretlandi og 19 dollara í Bandaríkjunum. Tölvuþrjótarnir sem brutust inn í kerfi Ashley Madison hafa sakað fyrirtækið um að innheimta gjaldið en vanrækja að eyða upplýsingunum, en það sé ein af ástæðum þess að þeir ákváðu að gera fyrirtækið að skotmarki sínu.
Talsmenn Ashley Madison hafa neitað ásökunum tölvuþrjótanna og segja að öllum upplýsingum sé sannarlega eytt þegar gjaldið hefur verið innheimt.
Hluti þeirra gagna sem stolið var hefur þegar verið birtur á netinu. Forsvarsmenn Ashley Madison segjast hafa náð árangri í að fá þeim eytt út af vefnum, en eðli málsins samkvæmt verður að teljast ólíklegt að þau skjóti ekki upp kollinum aftur. Þá hafa tölvuþrjótarnir hótað að birta allan gagnapakkann ef vefsíðunni verður ekki lokað.
Guardian hefur eftir sérfræðingi að mikill skaði geti hlotist af þjófnaðinum þar sem eðli þeirra gagna sem stolið var, s.s. viðkvæmar myndir og upplýsingar um kynlífshegðun, geri það að verkum að fólk veigrar sér við að stíga fram og biðja um aðstoð.
Stofnandi Ashley Madison, Noel Biderman, sagði á sunnudag að sökudólgurinn, eða dólgarnir, á bak við „nethryðjuverkið“ væru líklega innanbúðarmenn; ekki starfsmenn en einhver með aðgang að tölvukerfum fyrirtækisins.
Í skilaboðum sem tölvuþrjótarnir birtu eftir þjófnaðinn kom bersýnilega fram að þeir hafa ekki mikla samúð með þeim sem hafa notað þjónustu Ashley Madison til að halda fram hjá maka sínum. Hitt á svo eftir að koma í ljós, hversu margar fjölskyldur munu bera skaða af uppljóstrunum þeirra.