Notar síðuna ekki til kynlífs

Skjáskot af heimasíðu Ashley Madison

Einn meðlimur Ashley Madison vefsíðunnar segist hafa byrjað að nota síðuna eftir að eiginmaður hennar varð Alzheimer sjúklingur. Pat, 60 ára, er gift en er gríðarlega einmana. Hún saknar ekki bara kynlífs, heldur saknar hún þess líka að geta átt dagleg samskipti og samræður við eiginmanninn.

„Ég kalla hitt fólkið á vefsíðunni pennavini. Þau eru fólk eins og ég, eru einmana. Allir glíma við einhver vandamál og ég tel það hjálpa ef maður skrifar eitthvað niður sem aðrir geta lesið,“ sagði Pat við Sky fréttastofuna.

Eins og fram hefur komið var gögnum síðunnar stolið af tölvuþrjótum. Síðan auðveldar notendum sínum að stunda framhjáhald.

Pat hefur eingöngu einu sinni hitt einhvern sem hún kynntist á síðunni og þá fékk hún sér bara drykk með viðkomandi. Öll hennar þátttaka fer fram skriflega og hún þvertekur fyrir það að halda framhjá eiginmanni sínum, líkamlega eða andlega.

„Ég hef ekki stundað kynlíf með neinum. Eina sem ég hef gert er að skrifa eða tala við aðra. Mér finnst gott að vita til þess að ég geti skrifað tölvupóst og sagt hvernig dagurinn minn hefur verið. Ef ég hef átt slæman dag er ég hughreyst. Meirihlutinn inni á síðunni sækist eftir kynlífi en ég tel að þar sé einnig fólk sem vill bara eiga samskipti við aðra.“

Pat ætlar sér ekki að falla fyrir neinum vegna þess að hún er trú eiginmanni sínum og ætlar sér heldur ekki að eyðileggja hjónaband einhvers annars. „Ef mér finnst ég finna eitthvað gagnvart öðrum hætti ég að tala við viðkomandi um leið. Ég veit hvað ég vil og það er ekki eitthvað líkamlegt.“

Pat staðhæfir að hún ætli að halda áfram að vera félagi að síðunni þrátt fyrir að gögnum síðunnar hafi verið stolið af tölvuþrjótum og óttast ekki fékúgun vegna þess.

Fyrri fréttir mbl.is um málið:

Birtu viðkvæm gögn ótrúrra maka

Kostar framhjáhaldssíðuna 27 milljarða

Hátíð fyrir skilnaðarlögfræðinga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert