„Þetta snýst um stefnuna okkar“

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Formannsslagur stendur nú yfir í Verkamannaflokknum í Bretlandi eftir að Ed Miliband sagði af sér formennsku eftir kosningaósigurinn í þingkosningunum í maí á þessu ári. Nú hefur Tony Blair fyrrum formaður flokksins tjáð sig um þá stefnu sem flokkurinn þarf að taka til þess að endurvinna traust kjósenda að nýju. 

Blair hélt ræðu á fundi þrýstihóps innan Verkamannaflokksins sem nefnist Progress. Hópurinn er talinn tilheyra hægri-armi flokksins.

„Ég gæti haldið ræðu um það hvernig á að vinna kosningar. Við vinnum með því að leita inn á miðju stjórnmálanna. Með stuðningi frá bæði verkalýðshreyfingunni og fyrirtækjum í landinu. Við vinnum ekki ef við staðsetjum okkur til vinstri í stjórnmálunum. En ég ætla ekki að halda slíka ræðu. Því þetta snýst frekar um hugmyndafræði,“ sagði Blair og nefndi fimm atriðið sem flokkurinn verður að vinna að til þess að endurheimta traust almennings.

Fyrst segir hann að flokkurinn verði að móta sér heildstæða stefnu. Ekki einfaldar setningar sem eru endurteknar í sífellu. „Stefnan verður að spanna allt frá heilbrigðiskerfinu til húsnæðismála. Frá breytingum á skattkerfinu til velferðarkerfisins.“

Í öðru lagi nefnir hann að flokkurinn verði að endurheimta traust þegar kemur að efnahagsmálum. „Það eru góð rök fyrir því að við hefðum átt að takmarka eyðsluna fyrir hrunið en það eru engin góð rök fyrir því að Verkamannaflokkurinn hafi orsakað hrunið. Við verðum að tala skýrt í þessum málum. Við getum ekki rætt framtíðina nema að við tölum skýrt varðandi fortíðina.“

Í þriðja lagi nefnir hann sveitastjórnarfulltrúa flokksins. „Verkamannaflokkurinn hefur víða unnið frábært starf í sveitarstjórnum. Við eigum að hampa því fólki og læra af því.“

Í fjórða lagi nefnir hann samskipti við fyrirtæki í landinu. „Við verðum að eiga samtal við þá sem reka fyrirtæki í landinu um erfiðleika þeirra og þarfir, um framleiðni og sérþekkingu. Svo mótum við nútímalega stefnu varðandi iðnað í landinu.“

Þá vill Blair líka nútímavæða flokksstarfið. „Við verðum að finna út hvernig stjórnmálaflokkur á að starfa í samfélaginu eins og það er í dag. Hvernig við tökum ákvarðanir, hvernig við tölum við fólk og hvernig við komum skilaboðum okkar til skila.“

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert