Hversu ríkur er Donald Trump, auðkýfingurinn litríki sem nú ætlar sér að verða forseti Bandaríkjanna? „Mjög ríkur,“ segir hann sjálfur. Í gær voru fjármál hans opinberuð. Hann á golfklúbba, fasteignir og fyrirtæki um allan heim.
Samkvæmt upplýsingum kjörstjórnar (e. Federal Election Commission) eru eignir Trump að minnsta kosti um 175 milljarða króna virði (1,3 milljarða dollara) - það segir þó aðeins hálfa söguna. Sjálfur segir hann virði veldis síns vera um 1.350 milljarða króna og það kann vel að vera því upplýsingar kjörstjórnar ná aðeins yfir hluta eigna hans og þær sem metnar eru á meira en 50 milljónir dala, um 6,7 milljarða króna. Samkvæmt gögnunum á hann um 70 milljónir dala í hlutabréfum, 9,5 milljarða króna, og skuldar um 240 milljónir dala, 32 milljarða króna.
Líkt að aðrir frambjóðendur til forseta var Trump skylt að afhenta og heimila birtingu á fjárhagsupplýsingum sínum. Margir efuðust reyndar um að hann myndi gera slíkt, en annað kom á daginn.
Meðal þess sem fram kemur í gögnunum er að Trump á 234 fyrirtæki og félög, sem bera nafn hans, Trump. Nafn hans er sterkt vörumerki og hefur hann m.a. nefnt fasteignafélög og golfvelli í höfuðið á sjálfum sér. Flest þeirra eru í New York en eignir sem bera nafn hans má einnig finna í Las Vegas, á Flórída, í Skotlandi og á Írlandi. Í þessum fyrirtækjum og félögum er Trump ýmist skráður eigandi, stjórnarformaður eða forstjóri.
Samkvæmt listanum á Trump 23 eignir sem eru meira en 50 milljóna dollara, 6,7 milljarða virði. Í flestum tilvikum er um fasteignir að ræða, m.a. golfvelli í Skotlandi og skrifstofu- og verslunarhús, m.a. á Wall Street. Þó er líklegt, líkt og segir í frétt Time um málið, að eignirnar séu hver og ein meira virði en samkvæmt kosningalögunum má ekki skrá verðmæti eigna yfir 50 milljónir dala.
Í upplýsingunum um fjármál Trumps má einnig sjá að hann er enn að fá höfundarlaun fyrir sína þekktustu bók, The Art of the Deal, sem kom út árið 1987.