Bandarískar hersveitir gerðu hinn 11. júlí síðastliðinn loftárás á skotmörk í héraðinu Paktika í Afganistan. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur nú greint frá því að í árásinni lést meðal annars háttsettur liðsmaður hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda.
Hinn látni er sagður vera Abú Khalíl al-Súdaní og kom hann meðal annars að skipulagi og stjórnun hryðjuverkasamtakanna innan landamæra Afganistans.
„Al-Súdaní er einn þriggja þekktra öfgamanna sem drepnir voru í árásinni. Dauði hans kemur til með að veikja stöðu al-Qaeda um heim allan,“ segir í yfirlýsingu sem varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sent frá sér og fréttaveita AFP hefur undir höndum.
Samkvæmt AFP var al-Súdaní einnig háttsettur meðlimur hins svokallaða shura-ráðs sem og yfirmaður þeirrar deildar al-Qaeda sem snýr að sjálfsvígs- og sprengjuárásum. Er hann sagður lykilmaður í aðgerðum samtakanna gegn bandarískum hersveitum og alþjóðaliðinu í Afganistan (ISAF).
„Hann stjórnaði einnig aðgerðum gegn bandalagssveitum, afgönskum og pakistönskum hersveitum og var í nánu sambandi við Ayman al-Zawahírí, leiðtoga al-Qaeda,“ segir í tilkynningunni.