Týndi gögnum um morðingja Alice

Alice Gross
Alice Gross AFP

Dánardómstjórinn sem rannsakaði dauða bresku skólastúlkunnar Alice Gross, týndi skýrslum um morð hennar í lest.

Dómsmálaráðuneyti Bretlands hefur hafið rannsókn á hvernig þetta gat gerst. Dánardómstjórinn Chinyere Inyama, týndi 30 blaðsíðna skýrslu um málið en skýrsluna hafði hann tekið á skrifstofu sinni.

Lögreglan segir að í skýrslunni hafi m.a. verið að finna gögn um meintan morðingja hennar, Arnis Zalkalns. Lögreglan telur að skýrslunni hafi verið hent í ruslið eins og hverju öðru sem finnst í lestunum.

Foreldrar stúlkunnar furða sig á málinu og segjast reiðir. Þeir voru aðeins nýverið upplýstir um að skýrslan hefði týnst. 

Hin fjórtán ára gamla Alice fannst látin í Grand Union-skurðinum í Ealing í London 30 september í fyrra. Hún hvarf frá heimili sínu um mánuði fyrr og var leit lögreglunnar og rannsókn á hvarfi hennar og síðar morði ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið. 

Þann 4. október fannst svo Zalkalns, sem var frá Lettlandi, hengdur í garði í vesturhluta London. Lögreglan telur að hann beri ábyrgð á dauða Alice. 

Á öryggismyndavélum má sjá Zalkalns elta hana á hjóli. Þá fannst sígarettustubbur skammt frá líki Alice og á honum lífssýni úr Zalkalns.

Um mánuði síðar týndi svo dánardómstjórinn gögnunum sem talin eru mikilvæg, í lestinni. Reynt var að finna skjölin en án árangurs. 

Zalkalns var 41 árs. Hann hafði setið í fangelsi í sjö ár í heimalandinu fyrir að myrða eiginkonu sína. Hann kom til Bretlands til að vinna í byggingariðnaði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert