„Við getum lært margt af Karli Marx“

Jeremy Corbyn er í framboði til formanns Verkamannaflokksins í Bretlandi.
Jeremy Corbyn er í framboði til formanns Verkamannaflokksins í Bretlandi. AFP

Jeremy Corbyn er nú talinn líklegastur til að verða næsti leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi þegar gengið verður til atkvæða í september á þessu ári. Margir hafa gagnrýnt Corbyn fyrir að vera of langt til vinstri til að geta komið flokknum aftur í ríkisstjórn, meðal annars Tony Blair fyrrverandi formaður flokksins og forsætisráðherra. 

Í dag var hann í viðtali á BBC og lét hann ummæli falla sem margir gera athugasemd við. Þar sagði hann meðal annars að Bretar geti lært margt af Karli Marx.

„Hann er mjög áhugaverð persóna sem við getum lært mjög margt af. Hann var með frábærar samfélagsgreiningar. Hugsjónin sem hann hefur skapað er ótrúlega áhugaverð,“ sagði Corbyn. 

Aðspurður hvort honum væri alvara með tilraun sinni til að verða formaður flokksins og forsætisráðherra, svarar hann því játandi. Hann hefur meðal annars sagst ætla að þjóðnýta járnbrautalestakerfi landsins og leggja á hátekjuskatt. 

Segir hann í viðtalinu að Ed Miliband, sem sagði af sér sem formaður flokksins eftir kosningaósigurinn í maí, hafi komið of vel fram við stórfyrirtæki. „Verkamannaflokkurinn er farinn að tengjast stórfyrirtækjum of mikið. Við höfum því ekki getað boðið Bretum upp á annan valmöguleika en þann sem nú þegar er í boði. Það var aðalvandamálið í síðustu kosningabaráttu,“ segir Corbyn.

Sjá frétt The Telegraph.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka