„Ég hafði ekki hugmynd um að ljónið sem ég drap væri þekkt, í uppáhaldi á svæðinu; væri með hálskraga og viðfangsefni rannsóknar, fyrr en þegar veiðunum var að ljúka,“ segir tannlæknirinn Walter Palmer í yfirlýsingu til Guardian, en Palmer hefur verið úthrópaður á samskiptamiðlum og á yfir höfði sér ákæru í Zimbabwe fyrir að hafa drepið ljónið Cecil.
Cecil var eitt ástsælasta ljón Afríku og þekktur fyrir þykkan dökkan makka. Hann var 13 ára gamall þegar hann var lokkaður út úr þjóðgarði með beitu og skotinn með boga og ör. Talið er að það hafi tekið Cecil um 40 klukkustundir að deyja.
Frétt mbl.is: Cecil fannst afhöfðaður og fleginn
„Ég réði fjölda fagmanna og þeir öfluðu tilskilinna leyfa. Eftir því sem ég best veit var allt í kringum þessa ferð löglegt og höndlað og framkvæmt á réttann hátt,“ segir Palmer. Hann segist verulega miður sín yfir því að ástundun sín á áhugamáli sem hann unni og sinnti á ábyrgan og löglegan hátt hefði haft þær afleiðingar að ljónið var drepið.
Cecil var afhöfðaður og fláður og í dag var sagt frá því að leifar hans hefðu fundist í Zimbabwe. Þær eru nú sönnunargögn í rannsókn málsins.
Frétt mbl.is: Afkvæmi Cecils verða drepin
Palmer er giftur tveggja barna faðir. Reiðileg ummæli og hótanir hafa streymt inn á Facebook-síðu tannlæknastofu hans og 12.000 hafa skrifað undir undirskriftalista um réttlæti til handa Cecil.
Árið 2009 birtist grein um Palmer í New York Times þar sem umfjöllunarefnið var veiðar á hjartardýrum. Í greininni kemur m.a. fram að Palmer hafi lært að skjóta af boga fimm ára gamall. Þá kemur einnig fram að árið 2009 hafi Palmer verið á reynslulausn fyrir að hafa logið að yfirvöldum um hvar hann drap svartabjörn í Wisconsin árið 2006.
Fregnir herma að Palmer hafi greitt 50.000 dali fyrir að drepa Cecil en aðilar í ferðaþjónustu í Zimbabwe segja tjónið af drápinu nema miklu meira.
Palmer á yfir höfði sér 15 ára fangelsi verði hann ákærður fyrir veiðiþjófnað.