Uber vill fjárfesta á Indlandi

AFP

Leigubílaþjónustan Uber vill fjárfesta fyrir einn milljarð dala, sem jafngildir um 135 milljörðum króna, á Indlandi. Þar sér félagið fjölmörg tækifæri til vaxtar sem það vill nýta sér.

Félagið hyggst stækka markaðshlutdeild sína í landinu og hefja starfsemi í fleiri borgum.

Í seinasta mánuði tilkynnti félagið að það hugðist einnig fjárfesta fyrir einn milljarð dala í Kína.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að starfsemi Uber hafi verið bönnuð fyrr á árinu í Indlandi eftir að ökumaður á vegum þjónustunnar var sakaður um að hafa nauðgað viðskiptavini.

Uber sótti um leyfi í Nýju-Delhí og öðrum borgum, en hélt starfsemi sinni þó áfram óbreyttri á meðan beðið var svara. Forsvarsmenn félagsins hafa sætt töluverðri gagnrýni í Indlandi.

Þeir vonast þó til þess að fjárfestingin í Indlandi muni leiða til þess að leigubílaferðum á vegum félagsins fjölgi á næstu níu mánuðum úr 200 þúsundum í eina milljón á dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert