Oppah Muchinguri, umhverfisráðherra Simbabve, vill að bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer, sem drap ljónið Cecil í þjóðgarðinum Hwange í landinu fyrr í mánuðinum, verði framseldur frá Bandaríkjunum.
Á blaðamannafundi í Harare, höfuðborg Simbabve, sagði ráðherrann að sækja ætti Palmer til saka fyrir ólöglegt athæfi sitt.
Talið er að Palmer, sem er búsettur í Minnesota í Bandaríkjunum, hafi greitt um fimmtíu þúsund dali, sem jafngildir um 6,7 milljónum króna, fyrir að skjóta dýrið með boga og ör.
Hann hefur beðist afsökunar og ítrekað að hann hafi ekki vitað að hann væri að brjóta lög.
Theo Bronkhorst, leiðsögumaður Palmers, var handtekinn á dögunum, en látinn laus gegn tryggingu í fyrradag. Hann hefur verið ákærður fyrir að koma ekki í veg fyrir ólöglegar veiðar.
Palmer er ekki aðeins eftirlýstur af yfirvöldum í Simbabve, heldur vilja yfirvöld vestanhafs einnig ná í skottið á honum.
The U.S. Fish & Wildlife Service hefur hafið rannsókn á dauða Cecil, en hefur ekki tekist að ná tali af Palmer sem er farinn í felur.