Rannsókn á máli veiðimannsins sem drap ljónið Cecil hefur nú undið upp á sig, en eftir að yfirvöld í Simbabve handtóku safarískipuleggjandann Headman Sibanda hefur grunur fallið á fleiri veiðimenn vegna ólögmætra veiða.
Dráp tannlæknis frá Bandaríkjunum á Cecil í vikunni hleypti af stað reiðibylgju og hefur beint sjónum heimsins að veiðiþjófnaði í Simbabve. Þar er að finna mörg stór spendýr sem eru flokkuð sem dýr í útrýmingarhættu, en margir veiðimenn eru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir fyrir að skjóta slík dýr, auk þess sem horn sumra þeirra eru vinsæl í alls konar meðöl.
Nú hafa yfirvöld í Simbabve greint frá því að annar Bandaríkjamaður, Jan Casmir Sieski, hafi fengið þjónustu frá Sibanda, en hann kom til landsins í apríl og felldi þar ljón.