Ekki ricotta heldur eitthvað glæpsamlegt

Matteo Messina Denaro
Matteo Messina Denaro Wikipedia

Ítalska lögreglan handtók ellefu manns í morgun en þeir eru grunaðir um að tengjast yfirmanni mafíunnar á Sikiley sem hefur verið á flótta í 22 ár.

Matteo Messina Denaro, 53 ára, hefur verið á flótta síðan árið 1993 en taliið er að hann hafi notað daglegt líf bóndabæjar í Mazara del Vallo sem dulmálslykil til þess komast í samband við liðsmenn sína.

Einn hinna handteknu, Vito Gondola, 77 ára, hafði það verkefni hjá mafíunni að hringja í liðsmenn glæpasamtakanna til þess að láta þá vita af verkefnum sem biðu þeirra. Skilaboðin voru sett undir stein á landareigninni og þegar viðkomandi var búinn að lesa þau eyddi hann þeim á staðnum.

„Ég hef sett ricotta ostinn til hliðar fyrir þig - kemur þú við síðar?“ er meðal þess sem hann sagði í símtölum sínum. Segir lögregla að þar hafi ekki verið átt við landbúnaðarafurðir heldur eitthvað allt annað.

„Það þarf að rýja rolluna... það þarf að rýja rollurnar“ og „heyið er tilbúið“ er meðal þess sem notað var í samtölum manna í millum.

Lögreglan fylgdist grannt með þessum samskiptum frá árinu 2011 til ársins 2014 og notaði meðal annars faldar myndavélar og hljóðnema til verksins sem búið var að fela víða á landareign bóndabæjarins.

Gondola heyrist í einu símtalinu segja öðrum mafíósa frá því að Denaro, sem áður var talið að gæti fyllt heilan kirkjugarð með fórnarlömbum sínum, sé að missa völdin meðal yngstu kynslóð mafíunnar. Þrír hinna handteknu eru komnir á áttræðisaldur.

Einu myndirnar sem eru til af Denaro eru frá byrjun tíunda áratugarins. Talið er að hann hafi tekið við sem guðfaðir mafínunnar af Toto Riina og Bernardo Provenzano, en þeir afplána báðir lífstíðardóma. Fátt er vitað um Denaro en að sögn lögreglu eru mennirnir 11 sem voru handteknir í dag þeir sem standa honum næst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka