Breska lögreglan hefur hafið formlega rannsókn á því hvers vegna lögreglan í Wiltshire rannsakaði ekki ásakanir á hendur fyrrverandi forsætisráðherra landsins og formanni Íhaldsflokksins, Edward Heath, um barnaníð.
Rannsóknin er gerð á vegum sjálfstæðrar stofnunar innan lögreglunnar, Independent Police Complaints Commission (IPCC), að því er fram kemur í Guardian og Telegraph í dag.
Rannsóknin á Heath er tengd fleiri slíkum rannsóknum á kynferðisbrotum breskra þingmanna og ráðherra í bresku ríkisstjórninni á síðustu öld. Talið er að brotin beinist að þúsundum barna.
Heath, sem lést 89 ára að aldri árið 2005, var forsætisráðherra frá 1970-1974. Heimili hans, Arundells í Wilshire er nú safn opið almenningi.
Lögreglan leitar nú eftir upplýsingum frá íbúum Salisbury í Wilshire þar sem Heath bjó um langt árabil. Hann er grunaður um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi og eru fórnarlömb hans beðin um að hafa samband við lögreglu.