Hljóp 3.100 mílur á 51 degi

Nirbhasa Magee.
Nirbhasa Magee.

Írinn Nirbhasa Magee, sem hefur búið, starfað og æft í Reykjavík frá því haustið 2013, kláraði lengsta götuhlaup heims, 3.100 mílna hlaupið í New York, sem haldið er á vegum Sri Chinmoy Maraþonliðsins, rétt í þessu.

Tími Nirbhasa var 51 dagur og um tólf klukkustundir. Staðfestur tími á enn eftir að birtast. 

New York Times kallaði hlaupið „Mount Everest ofurmaraþona“ og einungis hlauparar með mikla reynslu og getu í hlaupum sem taka marga daga fá þátttökurétt.

Heildarvegalengdin er 3.100 mílur eða um 4.988 kílómetrar og fá hlaupararnir 52 daga til að klára hlaupið. Þeir þurfa því að hlaupa að meðaltali um sextíu mílur, eða tæpa hundrað kílómetra, á dag.

Nirbasha var í viðtali við Morgunblaðið í júní síðastliðnum. Hann sagði þá ómögu­legt að segja til um hvað get­i gerst í svona löngu hlaupi og því væri helsta mark­miðið sitt að viðhalda ánægjunni í hlaup­inu og í öðru lagi að ljúka keppni.

Nir­bhasa sagði að í svona löngu hlaupi kæmi hug­leiðslan að miklu gagni og því stæði hann vel að vígi eft­ir að hafa stundað hug­leiðslu í yfir ára­tug. Hann sagði gald­ur­inn fel­ast í því að hugsa ekki um heild­ar­vega­lengd­ina held­ur brjóta hlaupið niður í litla búta. Á hlaup­um hugsi hann um hvað hann sé hepp­inn að vera til og sé þakk­lát­ur fyr­ir að búa á Íslandi, vera í góðri vinnu og svo fram­veg­is.

Hleypur um borgina

Hann býr í miðbæ Reykja­vík­ur og hef­ur hlaupið mis­mun­andi leiðir í borg­inni og ná­grenni. Þannig hef­ur einn hring­ur­inn verið með strand­lengj­unni upp í Mos­fells­bæ, þaðan að Hafravatni og síðan niður Elliðaár­dal og heim og ann­ar sömu leið nema heim í gegn­um Hafn­ar­fjörð. Þar sem hlaupið er í nokk­urs kon­ar hringi í keppn­inni í New York hef­ur um­hverfi Tjarn­ar­inn­ar í Reykja­vík reynst vel. „Ef hlaupið er í kring­um báðar tjarn­irn­ar er hring­ur­inn míla og því jafn­gilda 60 hring­ir vega­lengd­inni sem þarf að hlaupa í New York á hverj­um degi keppn­inn­ar,“ sagði hann Nir­bhasa.

Finn­inn Ashpri­hanal Aalto sló heims­met í hlaupinu þegar hann gerði sér lítið fyr­ir og hljóp 3.100 míl­urnar á 40 dög­um, 9 klukku­stund­um, 6 mínut­um og 21 sek­úndu.

Bætti hann þar með sitt fyrra heims­met um 23 klukku­tíma og 10 mín­út­ur.

Fréttir mbl.is:

Hleypur um 100 km á dag í 52 daga

Hljóp 4.988 kílómetra á 40 dögum

Heimasíða hlaupsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert