Strokufanginn Richard Matt var ölvaður þegar hann var skotinn til bana nálægt landamærum Kanada í júnímánuði, að sögn bandarískra yfirvalda.
Samkvæmt niðurstöðu úr krufningu mældist 0,18 prómíll af áfengi í blóði Matts, en samkvæmt lögum í New York er heimilt að hafa allt að 0,08 prómíll af áfengi í blóðinu til þess að mega keyra bíl.
Matt og félagi hans, Richard Sweat, sluppu á ótrúlegan hátt úr Clinton-fangelsinu í Dannemora 6. júní síðastliðinn og gengu lausir í um þrjár vikur. Matt var skotinn til bana af lögreglu en Sweat náðist lifandi. Hann er aftur kominn í fangelsi.
Sweat hefur sagt rannsóknarlögreglumönnum að Matt hafi verið slæmu formi og drukkið of mikið áfengi á flóttanum. Mennirnir rændu áfengi úr veiðikofa sem þeir brutust inn í. Þeir urðu ósáttir um fimm dögum áður en Sweat náðist og fóru í sitthvora áttina. Matt var skotinn til bana í um 25 kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem Sweat fannst.
Að sögn yfirvalda fundu lögreglumenn áfengislykt af líkinu í nokkurra metra fjarlægð. Tveimur dögum seinna skaut lögreglumaður Sweat rétt hjá landamærum Bandaríkjanna og Kanada.