Tannlæknirinn „gerði ekkert rangt“

Leiðsögumaðurinn Theo Bronkhorst.
Leiðsögumaðurinn Theo Bronkhorst. AFP

Bandaríski tannlæknirinn sem drap ljónið Cecil í Simbabve gerði ekkert rangt og var „góður maður“. Þetta sagði leiðsögumaðurinn Theo Bronkhorst í dag en hann á að hafa skipulagt hina umdeildu veiðiferð í síðasta mánuði.

Réttarhöld yfir Bronkhorst áttu að hefjast í dag en þeim var frestað. Bronkhorst hefur verið ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyr­ir ólög­lega veiði. Hann ræddi við fjölmiðla fyrir utan dómssalinn í dag.

Þá sagði hann m.a. að málið væri „fáránlegt“ og að hann hafi haft öll tilskilin leyfi til þess að drepa Cecil fyrir utan Hwange þjóðgarðinn.

Drápið á Cecil hefur vakið mikla reiði um allan heim og er tannlæknirinn, Walter Palmer í felum.

Fólk hefur mótmælt fyrir utan tannlæknastofu hans í Minnesota í Bandaríkjunum og hafa skemmdarvargar skrifað „Ljóna morðingi“ á bílskúrshurð sumarhúss hans í Florida með málningu.

Oppah Muching­uri, um­hverf­is­ráðherra Simba­bve, hef­ur kallað eft­ir því að Pal­mer verði fram­seld­ur til lands­ins og svari fyr­ir ólög­leg at­hæfi sín. Eins og áður hef­ur komið fram hef­ur tann­lækn­ir­inn beðist af­sök­un­ar á dráp­inu og vill meina að hann hafi verið blekkt­ur af Bronkhorst sem skipu­lagði veiðiferðina. 

En þegar að Bronkhorst yfirgaf dómshúsið í Hwange í norðvestur Simbabve sagðist hann vorkenna tannlækninum. „Ég vorkenni Palmer. Hann er góður maður. Hann gerði ekkert rangt,“ hafði AFP fréttastofan eftir honum. Bronkhorst gagnrýndi einnig dómsmálið og kallaði það „hégómlegt“ og sagði að veiðar sem þessar væru nauðsynlegar fyrir Simbabve og þyrftu að halda áfram.

„Ef við notum ekki dýralífið hér á sjálfbæran hátt verður ekkert dýralíf hér eftir,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert