Náttúruverndarhópur í Simbabve hefur nú greint frá áætlunum sínum um að reisa styttu af ljóninu Cecil, sem var drepið í síðasta mánuði. Dráp Cecil hefur vakið heimsathygli og mikla reiði en ljónið var lokkað úr þjóðgarði með beitu og síðan skotið með boga og ör af bandarískum tannlækni.
Samkvæmt frétt BBC verður styttan í fullri stærð og úr bronsi. Hún mun standa við inngang Hwange þjóðgarðsins, þar sem Cecil bjó áður en hann var skotinn af Walter Palmer í síðasta mánuði. Yfirvöld í Simbabve hafa nú kallað eftir því að Palmer verði framseldur þangað og látinn svara fyrir brot sitt.
Cheryl Rodrigues, talsmaður Zimbabwe Conservation Task Force sagði í dag að hópurinn hafi fengið heimild fyrir því að reisa styttuna og að nú þegar hafi fólk boðið hópnum fjárstyrk.