Dauðadómur eða lífstíðarfangelsi?

James Holmes í dómssal stuttu eftir morðin.
James Holmes í dómssal stuttu eftir morðin. AFP

Kviðdómur í Colorado ríki Bandaríkjanna hefur nú tekið ákvörðun um hvort að fjöldamorðinginn James Holmes verði tekinn af lífi eða dæmdur í lífstíðarfangelsi en í síðasta mánuði var hann dæmdur sekur um tólf morð.

Holmes er fyrrverandi framhaldsnemi í taugavísindum. Hann myrti tólf manns og særði sjötíu þegar hann hóf skothríð á miðnætursýningu á Batman mynd í kvikmyndahúsi í borginni Aurora í júlí 2012.

Ákvörðun kviðdómsins verður lesin upp klukkan 17 að staðartíma eða klukkan 23 að íslenskum tíma.

Verjendur Holmes hafa alltaf haldið því fram að skjólstæðingur þeirra hafi ekki verið heill á geði þegar árásin var framin. Saksóknarar hafa þó sagt að þrátt fyrir andleg veikindi Holmes, ber hann ábyrgð á gjörðum sínum þetta örlagaríka kvöld. Kviðdómurinn var sammála um það og dæmdi Holmes sekan.

Samkvæmt frétt BBC þarf það að vera einróma ákvörðun kviðdómsins ef Holmes er dæmdur til dauða. 

Ættingjar fórnarlamba Holmes eru margir óssamála um örlög morðingjans. Sumir vilja ekki að hann verði tekinn af lífi, enda tekur það oft mörg ár með tilheyrandi áfrýjunum. Margir vilja að málinu ljúki sem fyrst og líta á lífstíðarfangelsisdóm sem bestu leiðina til þess.

20. júlí 2012 gekk Holmes inn á miðnæturforsýningu Batman myndarinnar The Dark Knight Rises, vopnaður riffli, haglabyssu og skammbyssu. Að sögn saksóknara í málinu var Holmes með háa raftónlist í eyrunum á meðan árásinni stóð „til þess að heyra ekki öskrin“.

Að mati saksóknara var árásin augljóslega skipulögð en Holmes hafi safnað saman vopnum í marga mánuði.

Foreldrar hans, Robert og Arlene Holmes segja að sonur þeirra sé „ekki skrímsli“ en þjáist af andlegum veikindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert