Furðar sig á að Heath hafi verið nafngreindur

Edward Heath.
Edward Heath. AFP

Bernard Hogan-Howe, æðsti yfirmaður lögreglunnar í London hefur gagnrýnt kollega sinn í Whiltshire fyrir að hafa nafngreint Edward Heath fyrrverandi forsætisráðherra landsins á meðan rannsókn á ásökunum í hans garð er enn á frumstigi.

Sjá frétt mbl.is: Segir að Heath hafi nauðgað sér

Hogan-Howe segir að æskilegt verklag sé að nafngreina ekki einstaklinga í slíkum málum fyrr en rannsókn málsins er lokið. Heath var nafngreindur fyrr í vikunni og sagður talinn vera hluti af umfangsmiklum barnaníðshring breskra stjórnmálamanna. 

Margir hafa gagnrýnt að nafn Heaths hafi verið dregið inn í málið á þessu stigi, meðal annars vegna þess að hann er látinn og getur ekki haldið uppi vörnum. Ráðherra í Bretlandi lýsti rannsókninni á máli Heaths sem nornaveiðum, sérstaklega í ljósi þess að fyrrverandi lögreglustjórinn sem hóf rannsóknina þurfti sjálfur að segja af sér eftir að hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir rannsóknarstörf sín. Var lögreglustjórinn meðal annars sakaður um að hafa leynt gögnum í málinu fyrir öðrum rannsakendum og veitt almenningi misvísandi upplýsingar um rannsóknina. Segir ráðherrann í samtali við The Telegraph að hinn nýi lögreglustjóri vilji sýna styrk sinn og þess vegna hafi nafn Heaths verið opinberað.

Sjá frétt mbl.is: Mikill einfari og aldrei við konu kenndur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert