„Hvenær neyttir þú fyrst ólöglegra lyfja?“ spurði Robert Chandler saksóknari í máli ákæruvaldsins gegn Lance Armstrong. „Sennilega árið 1993,“ svaraði Armstrong.
Nýjar upptökur frá skýrslutökunni yfir hjólreiðamanninum hafa verið opinberaðar þar sem Armstrong segist fyrst hafa neytt ólöglegra lyfja frá árinu 1993. Hann hefur áður viðurkennt ólöglega lyfjanotkun en hefur ekki gefið nákvæmar upplýsingar um umfangið.
USA Today hefur upptökurnar undir höndum og gerir grein fyrir þeim á vef sínum í dag. Saksóknarinn spyr síðan hvort það sé möguleiki á því að hann hafi neytt ólöglegra lyfja fyrir árið 1993. Armstrong segist ekki geta svarað því af nákvæmni. „Ég get ekki sagt með vissu hvenær ég gerði það fyrst en mér finnst líklegt að það hafi verið árið 1993.“ Armstrong greindi síðan frá því að efnið sem hann hefði notað væri Synacthen en það örvar nýrnahetturnar og eykur framleiðslu kortisóls í blóðinu.
Fyrr í þessari viku kom fram í fjölmiðlum vestanhafs að saksóknarinn í málinu vilji komast að því hvort læknarnir sem læknuðu Armstrong af krabbameini árið 1996 hafi áttað sig á því að hann hefði neytt ólöglegra lyfja.