„Okkur þótti þetta fyndið, auk þess sem þetta er satt. Hann veiðir hvorki ljón né nokkur önnur dýr,“ segir hin bandaríska Tisa Hagerty, en hún lét setja upp áberandi skilti við tannlæknastofu eiginmanns síns, Curtis Hagerty, eftir að dráp tannlæknisins Walters Palmes á ljóninu Cecil fékk heimsathygli.
Á skiltinu stendur einfaldlega „PS Ég veiði ekki ljón“ (e. By the way I don‘t hunt lions). „Þetta er ekki pólitísk yfirlýsing, heldur finnst okkur bara gaman að láta fólk hlæja,“ segir Tisa í samtali við Huffington Post. Hún segir viðbrögðin hafa verið góð og viðskiptavinir og vegfarendur hafi gaman að skiltinu. Aðspurð segir hún áhugamál þeirra utan vinnu ekki fela í sér nein dráp, en uppáhalds íþróttir tannlæknisins eru „softball“ og amerískur fótbolti. „Það kann svo að hljóma kaldhæðnislega, en Curtis er mikill aðdáandi Auburn Tigers fótboltaliðsins,“ segir Tisa, en eins og glöggir kunna að sjá útleggst nafnið á íslensku sem „Auburn tígrisdýrin“.
Cecil var eitt frægasta ljón Afríku, en hann fannst afhöfðaður og fleginn í Hwange-þjóðgarðinum í júlí. Drápið hefur vakið mikla athygli og kallaði umhverfisráðherrann Oppah Muchinguri eftir því á dögunum að tannlæknirinn Walter Palmer yrði framseldur til landsins til að svara fyrir brot sín. Palmer kveðst ekki hafa vitað að hann væri að drepa Cecil og segist hafa verið blekktur af leiðsögumanni sínum, Theo Bronkhurst. Sá hefur nú verið ákærður fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir ólöglega veiði.