Einn af ungum ljónsins Cecil hefur nú verið drepinn af öðru ljóni sem reyndi að para sig við móður ungans. Cecil var drepinn í síðasta mánuði af bandarískum tannlækni í veiðiferð. Hann var eitt ástsælasta ljón Simbabve og hefur málið vakið mikla reiði.
The Telegraph segir frá þessu.
Þegar í ljós kom að Cecil hefði fallið var óttast um afkvæmi hans og að þau yrðu drepin af öðrum ljónum sem myndu reyna að komast til valda í hjörðinni sem Cecil stjórnaði áður fyrr.
Eftir drápið á Cecil vöruðu náttúrulífssérfræðingar við því að aðeins væru 5% líkur á að afkvæmi ljónsins myndu lifa af en stuttu eftir drápið sáust yngri ljón nálægt yfirgefnu bæli hjarðarinnar í Hwange þjóðgarðinum.
Að sögn heimildarmanns reyndi ljónynjan að vernda afkvæmi sín en réð ekki við ljónið sem var mun stærra en hún. Síðan að Cecil var drepinn hafa heyrst ljónsöskur í garðinum frá ungum karlkyns ljónum en þau keppast nú um að verða höfuð hjarðarinnar.