Hnífstunga í IKEA-verslun

Frá vettvangi í Västerås.
Frá vettvangi í Västerås. Skjáskot/Expressen

Tveir létu lífið lífið og einn særðist alvarlega í hnífaárás í verslun IKEA í bænum Västerås, rétt fyrir utan Stokkhólm, í Svíþjóð í dag.

Fyrstu fregnir herma að fólkið hafi verið stungið til bana með hníf í eldhúsáhaldadeildinni. Matthias Johannsson verslunarstjóri verslunarinnar segir við fjölmiðla að mikið blóð hafi verið á staðnum og bæði margir gestir og starfsmenn í áfalli.

„Þetta er það versta sem ég hef nokkru sinni upplifað. Versti dagur lífs míns,“ sagði Johannsson við fjölmiðla um klukkan 13:45 í dag. „Það stendur yfir lögreglurannsókn hér inni og ég mun ekki tjá mig meira um það mál. Það sem ég get staðfest er að tveir eru látnir og einn slasaður. Ég get einnig staðfest að hinir látnu og hinn slasaði eru ekki starfsmenn verslunarinnar,“ sagði Johannsson. Hinir látnu þekktust að einhverju leyti, að sögn lögreglunnar. 

Per Agen, lögregluþjónn í bænum, segir að einn maður hafi þegar verið handtekinn, grunaður um morð. Lögreglufólk frá nærliggjandi bæjum, meðal annars Uppsala, hefur verið fengið til að aðstoða við löggæslustörf á svæðinu. 

Bærinn hefur sett á laggirnar teymi sem mun veita viðstöddum áfallahjálp. 

Lögreglan staðfesti í samtali við SVT að tveir manns hefðu látið lífið í áflogunum, maður og kona, en áður hafði talsmaður IKEA ekki getað staðfest það. Þá var 35 ára gamall maður fluttur á spítala með alvarlega áverka. „Maðurinn er í lífshættu og er núna verið að framkvæma aðgerð á honum,“ segir Lena Maren, vakthafandi hjúkrunarfræðingur við spítalann í Västerås. Var maðurinn meðvitundarlaus þegar lögregluna bar að garði og gat hann því ekki tjáð sig um árásina. 

Expressen ræddi við Magnus Eriksson sem staddur er við verslunina. Að sögn Erikssons stöðvar lögreglan allar bifreiðir á leið frá IKEA og leitar í þeim. Hefur því myndast gríðarlega löng röð frá versluninni. Lögreglan veit ekki hver ástæða árásarinnar sé.

Verslunin í Västerås, sem er í um 115 kílómetra fjarlægð frá Stokkhólmi, er ein stærsta IKEA-verslunin í Svíþjóð. Erikslund verslunarmiðstöðinni, þar sem verslunin er staðsett, hefur verið lokað vegna málsins en samkvæmt heimildum héraðsmiðilsins í Västerås ríkir mikil ringulreið á staðnum. Einhverjar fregnir hafa borist af því að nokkrir gestir verslunarinnar séu nú fastir inni í versluninni. Þá er gríðarlegur fjöldi lögreglumanna og sjúkraliða á staðnum. 

Einn maður hefur verið handtekinn, grunaður um verknaðinn. Gekk handtakan að sögn lögreglu rólega fyrir sig. Vitni bentu lögreglu á árásarmanninn. Verið er að yfirheyra hann þessa stundina.

<a href="http://www.svt.se/nyheter/regionalt/vastmanland/knivskarning-pa-erikslund">Frétt SVT</a>
Árásin varð í Västerås, vestur af Stokkhólmi.
Árásin varð í Västerås, vestur af Stokkhólmi. Mynd/Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert